EN

5. júní 2024

Hinn heimsþekkti Yo-Yo Ma spilar með Sinfóníunni og á dúótónleikum með píanistanum Kathryn Stott

Í október mun bandaríski sellóleikarinn Yo-Yo Ma leika með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Hörpu og á sérstökum dúótónleikum í Eldborg með breska píanistanum Kathryn Stott. Yo-Yo Ma er einn þekktasti núlifandi hljóðfæraleikari heims og er koma hans því sannkallaður stórviðburður í íslensku tónlistarlífi. Á löngum og glæsilegum ferli hefur hann hljóðritað yfir 90 hljómplötur og unnið til 19 Grammy-verðlauna. Ásamt því að koma reglulega fram í mörgum af þekktustu tónleikahúsum heims og með framúrskarandi hljómsveitum hefur hann spilað á stórviðburðum eins og innsetningum forseta Bandaríkjanna og opnunarhátíð Ólympíuleika. Koma hins heimskunna sellóleikara er hluti af 75 ára afmælisdagskrá Sinfóníuhljómsveitar Íslands og mun hann leika hinn áhrifamikla sellókonsert Edwards Elgar með hljómsveitinni.

Mig hefur dreymt um að heimsækja Ísland alla mína ævi. Heimurinn getur lært svo mikið af íslenskri leiðtogahæfni og visku og ég get ekki beðið eftir því að leika með dásamlegu tónlistarfólki landsins og með minni kæru vinkonu Kathryn Stott.“ - Yo Yo Ma.

Það hefur verið draumur minn að koma til Íslands svo lengi sem ég man, að segja að ég sé spennt er vægt til orða tekið. Ég hlakka ekki aðeins til að upplifa stórbrotna náttúruna heldur að kynnast líka hinu menningarlega landslagi. Ég get varla beðið eftir hughrifunum þegar ég spila á tónleikum í Hörpu á þessu lokaferðalagi með mínum kæra kollega til fjörutíu ára, Yo-Yo Ma.“ - Kathryn Stott.

Eftirvæntingin er gríðarleg. Okkur hefur lengi dreymt um að eiga í samstarfi við þennan einstaka listamann og nú er sá draumur loks að rætast. Yo-Yo Ma er ekki aðeins einn þekktasti sellóleikari sögunnar, heldur er hann mikill hugsjónarmaður og trúir á mátt tónlistar og menningar til að auka traust og skilning. Hann er mjög áhugasamur um að eiga gott samtal og samstarf við íslenskt listafólk og aðra við komu sína til landsins í október. Þetta verður algjör hátíð.” - Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri SÍ.

 

Yo-Yo Ma fæddist árið 1955 í París en foreldrar hans eru kínverskir. Hann hóf sellónám 4 ára gamall og fluttist til New York með fjölskyldu sinni á barnsaldri. Hann lagði stund á tónlistarnám við Juilliard háskóla og lauk einnig námi í mannfræði frá Harvard háskóla. Yo-Yo Ma hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir störf sín en þar má nefna heiðursmerki forseta Bandaríkjanna sem hann hlaut árið 2010. Hann hefur um áratugaskeið nýtt tónlistina í baráttu fyrir friði og samvinnu og hefur til að mynda verið einn af friðarsendiboðum sameinuðu þjóðanna frá árinu 2006.

Ma-Stott2_2020_-c-MarkMann-1-Yo-Yo Ma og Kathryn Stott

Kathryn Stott stundaði tónlistarnám við Yehudi Menuhin skólann og Royal College of Music í London þaðan sem leiðin lá í Alþjóðlegu píanókeppnina í Leeds. Hún nýtur þess að vinna við tónlistarstjórn og starfaði áður sem listrænn stjórnandi Áströlsku kammertónlistarhátíðarinnar. Ástríða Stott er að hafa áhrif á ungt tónlistarfólk og það gerir hún í gegnum kennarastöðu sína við Tónlistarakademíuna í Osló. Fjöldi tónskálda, þeirra á meðal Graham Fitkin, hafa samið tónverk sérstaklega fyrir hana.

Yo-Yo Ma og Kathryn Stott hafa átt farsælt samstarf um árabil, leikið saman á fjölda tónleika og sent frá sér verðlaunaðar hljóðritanir. Þessir tónleikar eru hluti af yfirstandandi tónleikaferðalagi þeirra þar sem þau leika í mörgum af helstu tónleikasölum heims, til dæmis í Barbican Centre, Konserthuset í Stokkhólmi, Fílharmóníunni í Berlín, Herkulessal í München og Fílharmóníunni í París. Þau hafa einnig haldið tónleika í þekktustu tónleikahúsum heims, til dæmis Walt Disney Hall í Los Angeles og Carnegie Hall í New York.

Tónleikar Yo-Yo Ma með Sinfóníuhljómsveit Íslands fara fram fimmtudaginn 24. október og dúótónleikar hans með Kathryn Stott verða laugardaginn 26. október. Báðir tónleikarnir veða haldnir í Eldborg í Hörpu. Forsala fyrir áskrifendur Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefst 13. júní og almenn miðasala hefst 19. júní á sinfonia.is og í miðasölu Hörpu.