EN

20. nóvember 2019

Komin heim eftir velheppnaða tónleikaferð

Sinfóníuhljómsveit Íslands er komin heim eftir velheppnaða tónleikaferð til Þýskalands og Austurríkis með hljómsveitarstjóranum Daníel Bjarnasyni, píanistanum Víkingi Heiðari Ólafssyni og hornleikaranum Radovan Vlatković. Hljómsveitin lék fyrir tæplega 10.000 tónleikagesti á fimm tónleikum í þremur borgum. Tónleikaferðin er sú fyrsta þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands er með íslenskan hljómsveitarstjóra og íslenskan einleikara í fararbroddi ásamt því að tvö íslensk tónverk eru í lykilhlutverki. 

Hljómsveitinni var einstaklega vel tekið og fékk hvarvetna frábærar móttökur tónleikagesta og fékk píanókonsert Daníels Bjarnasonar, Processions, sem Víkingur Heiðar Ólafsson flutti ásamt hljómsveitinni frábæra dóma gagnrýnenda.

 „Þessir gestatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands voru tilkomumikill línudans milli elds og íss í tónlistinni, og hápunkturinn var tvímælalaust píanókonsert Daníels Bjarnasonar,“ 

segir meðal annars gagnrýnandi hjá Bachtrack sem gaf fyrstu tónleikum ferðarinnar í Herkulessaal í München fjórar stjörnur.

Munchen-13

Fyrstu tónleikar ferðarinnar voru í Herkulessaal í München.

Á tónleikunum í München stjórnaði Daníel Bjarnason, aðalgestastjórnandi hljómsveitarinnar, eigin verki, Processions, og Víkingur Heiðar Ólafsson lék einleik. Þeir frumfluttu þetta magnaða verk með hljómsveitinni árið 2009 í Háskólabíói. Á tónleikunum lék hljómsveitin einnig fjórðu sinfóníu Tsjajkovskíjs og þætti úr Pétri Gaut eftir Edvard Grieg.

Gagnrýnandi Abendzeitung München var einstaklega hrifinn af spilamennsku hljómsveitarinnar:

Einstakir hljóðfærahópar í hljómsveitinni voru fullkomlega samstilltir.

Tónleikagestir voru ekki síður hrifnir af tónleikunum og skrifuðu m.a. um tónleikana:

Afar skemmtilegir tónleikar og eiginlega það besta sem ég hef heyrt nýlega í Herkúlesarsalnum. Sinfóníuhljómsveit Íslands skapaði ótrúlega hljóðheima og jafnvel í þekktari verkunum gaf hún þeim alveg sérstakan blæ. 

Hljómsveit í toppklassa, tæknilega fullkomin!

Alveg frábær hljómsveit. Tónleikarnir hrifu okkur mjög, og það væri ánægjulegt ef við hefðum oftar tækifæri til að heyra og sjá Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

Dásamlegt – hvílík upplifun. Melankólísk, rómantísk, villt – hvað á eftir öðru og einnig samstundis. [...] Geðveikt! Toppur!

Þá hélt hljómsveitin til Salzburgar þar sem hún var með þrenna tónleika í Großes Festspielhaus. Króatíski hornsnillingurinn Radovan Vlatković lék einleik í hornkonsert nr. 3 eftir Mozart á tvennum tónleikum hljómsveitarinnar. Upptaktur tónleikanna var Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur, staðartónskáld hljómsveitarinnar, en verkið er á góðri leið með að verða eitt mest flutta íslenska hljómsveitarverk síðari áratuga.

SKV_IcelandSymphonie20191113048

Frá tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í Salzburg með Radovan Vlatković.

Á þriðju og síðustu tónleikunum í Salzburg lék hljómsveitin sömu efnisskrá og í München með Víkingi Heiðari Ólafssyni við píanóið í verki Daníels Bjarnasonar sem hélt um tónsprotann. Gagnrýnandi PNP var einstaklega hrifinn af píanókonserti Daníels.

DSC_0136

Víkingur Heiðar leikur Processions með Sinfóníuhljómsveitinni
undir stjórn Daníels Bjarnasonar í Salzburg.

Lokatónleikar ferðarinnar voru í hinu virta tónlistarhúsi Konzerthaus í Berlín. Tónleikarnir voru hápunktur Íslandshátíðar tónleikahússins sem stóð yfir dagana 14. - 17. nóvember. Þýska ríkisútvarpið Deutschlandfunk Kultur tók upp tónleikana í Berlín og sendir þá þriðjudaginn 19. nóvember. Hér er hægt að hlusta á upptökuna.

DSC01082

Konzerthaus í Berlín er eitt virtasta og glæsilegasta tónlistarhús Evrópu
og er þekkt fyrir einstakan hljómburð.

Hljómsveitinni var einstaklega vel tekið og var setið í hverju sæti á tónleikunum. Víkingur Heiðar lék einleik í píanókonsert eftir Daníel Bjarnason, Processions, en hann er staðarlistamaður Konzerthaus og listrænn stjórnandi Íslandshátíðarinnar. Á tónleikunum lék hljómsveitin einnig Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur og fimmtu sinfóníu Sibeliusar.