EN

  • CHANDOS RECORDS (CHAN 10514) 2009

13. nóvember 2012

Fyrsta hljóðritun Chandos í Hörpu

 

Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðritaði fimmta geisladisk sinn með verkum franska tónskáldsins Vincent d'Indy fyrir Chandos-útgáfuna í byrjun nóvember. Hljóðritunin fór fram í Eldborg en er það í fyrsta sinn sem hljómsveitin tekur upp í Hörpu.

Eins og áður var Rumon Gamba hjómsveitarstjóri í upptökunum. Fyrri geisladiskar hljómsveitarinnar í þessari röð hafa fengið einróma lof hjá erlendum fagtímaritum og voru Sinfóníuhljómsveit Íslands og Rumon Gamba tilnefnd til Grammy-verðlaunanna fyrir fyrsta diskinn í röðinni.

Ralph Couzens, forstjóri Chandos stjórnaði upptökum og var hann mjög ánægður með hljómburðinn í Eldborg.


"Það eru ekki margir tónleikasalir sem hafa risið á síðastliðnum 30 árum sem hægt er að segja um "þeir náðu hljómburðinum réttum" en ég trúi því staðfastlega að í Eldborgarsal Hörpu í Reykjavík sé einn besti hljómburður í klassískum tónleikasal sem ég hef heyrt. Hljómurinn er skýr og víðáttumikill með náttúrulegum blæ þannig að hljómsveitin hljómar eins og best verður á kosið. Ég held að þessi salur hljómi jafn vel með stærstu hljómsveit og kór og ég hlakka til að fá að reyna það einn góðan veðurdag. Fyrsta reynsla mín af upptöku í salnum á þessu ári sannaði einnig að salurinn er algjörlega hljóðeinangraður - það var fárviðri fyrir utan! Get ekki beðið eftir að vinna þar aftur."


Stefnt er að því að nýi diskurinn komi út á næsta ári hjá Chandos.