EN

  • harpa_forsida

3. desember 2012

Sinfónían tilnefnd til Íslensku tónlistarverðlaunanna

Tilnefningar Íslensku tónlistarverðlaunanna 2012 voru kynnar föstudaginn 30. nóvember við hátíðlega athöfn í Hörpu.

Sinfóníuhljómsveit Íslands er tilnefnd í þremur flokkum í ár. Hljómsveitin fékk tilnefningu sem tónlistarflytjandi ársins í flokki sígildrar- og samtímatónlist.  Í áliti dómnefndar segir:
Á árinu tókst hljómsveitin á við margbreytileg verk á áræðinn og ferskan hátt. Meðal hápunkta ársins má nefna Beethoven-hringinn og Tectonics hátíðina.

Þá fékk Sinfóníuhljómsveit  Íslands  tilnefningu fyrir hljómplötu ársins í sama flokki fyrir Klarínettukonserta þar sem Einar Jóhannesson leikur einleik með hljómsveitinni.
Einstakur vitnisburður um einn af allra bestu listamönnum þjóðarinnar í einleikshlutverki í verkum eftir Mozart, Weber, Debussy og Jón Nordal.

Tectonics tónlistarhátíð Sinfóníuhjómsveitar Íslands  undir stjórn Ilans Volkov aðalhjómsveitarstóra er tilnefnd sem tónlistarviðburður ársins.

Aðrar tilnefningar sem tengjast hljómsveitinni eru:

Joseph Ognibene, hornleikari og Petri Sakari, stjórnandi - Fyrir frumflutning á Hornkonserti Áskels Mássonar með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Hornkonsert -Áskell Másson. Vel fléttuð heild. Í verkinu nýtir Áskell hljóðfærið og náttúrutónaraðir þess afar vel.

Einar Jóhannesson - Fyrir flutning á Reykjavik Midsummer Music í Hörpu í júní síðastliðnum. Sérstaklega er eftirminnilegur flutningur hans í Kvartetti um endalok tímans eftir Messiaen.

Orkestur - Hugi Guðmundsson. Í verkinu teflir Hugi fram andstæðum í blæ og stemmningu. Upphafið er gegnsætt en svo hefst annar kafli með miklu brassi og alveg nýjum tón. Glæsilegt og skemmtilegt verk.

Mótettukór Hallgrímskirkju - Fyrir flutning á Níundu sinfóníu Beethovens, Messu í c-moll eftir Mozart og Óttusöngva á vori eftir Jón Nordal og margt fleira á sérlega öflugu 30 ára afmælisári sínu.

Elfa Rún Kristinsdóttir - Fyrir fiðlupartinn í Sinfonia concertante eftir Mozart á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands sl. vor og flutning með kammersveit sinni Kaleidoscope á tónlistarhátíð í Hörpu í október.

Þóra Einarsdóttir - Þóra kom víða við í íslensku tónlistarlífi í ár. Hún söng meðal annars hlutverk Mimiar í La Boheme og frammistaða hennar í einu af einsönghlutverkum c-moll messu Mozarts var framúrskarandi.