EN

23. september 2009

Sinfónían hljóðritar fyrir Chandos

Sinfóníuhljómsveit Íslands hljóðritaði þriðja geisladisk sinn með verkum franska tónskáldsins Vincent d'Indy fyrir Chandos-útgáfuna nú um miðjan september. Eins og áður stýrði Rumon Gamba hljómsveitinni, en auk þess lék Sigurður Flosason einleik á saxófón í verkinu Choral varié.  Einnig var hljóðrituð þriðja sinfónía tónskáldsins, auk tveggja smærri hljómsveitarverka.

Fyrri geisladiskar SÍ í þessari röð hafa fengið einróma lof hjá erlendum fagtímaritum. Skemmst er að minnast þess þegar fyrsti diskurinn var tilnefndur til Grammy-verðlauna fyrir besta hljómsveitarflutning, og flutningur SÍ á sinfóníu nr. 2 eftir d'Indy var valinn einn af diskum mánaðarins í Gramophone fyrr á árinu. Um þann disk sagði Andrew Achenbach í Gramophone: „Eins og áður leikur SÍ með bæði lofsverðri fágun og smitandi áhuga, og tónninn í upptökunni hefur bæði áþreifanlega nánd og heillandi birtu. Þetta er afskaplega góður geisladiskur, áfram með þann næsta í röðinni!“  Stefnt er að því að nýi diskurinn komi út snemma á næsta ári.

Hér má sjá frétt mbl sjónvarps um upptökur SÍ fyrir Chandos