EN

8. nóvember 2015

Sigurvegarar í einleikarakeppni SÍ og LHÍ

Á hverju ári heldur Sinfóníuhljómsveitin í samstarfi við Listaháskóla Íslands einleikarakeppni sem er opin öllum tónlistarnemum á háskólastigi, óháð því hvaða skóla þeir sækja. Hver nemandi flytur hálftíma dagskrá með verkum af ólíkum toga. Sigurvegararnir hljóta að launum tækifæri til að leika einleik á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands.

Keppnin fór fram laugardaginn 7. nóvember. Þátttakendur voru 12 talsins og stunda þeir allir söng- eða hljóðfæranám á bakkalárstigi.

Dómnefnd var skipuð þeim Árna Heimi Ingólfssyni, formaður, Brjáni Ingasyni, fagottleikara, Sigrúnu Hjálmtýsdóttur, söngkonu, Sigurði Bjarka Gunnarssyni, sellóleikara, Símoni H. Ívarssyni, gítarleikara og Stefáni Jóni Bernharðssyni, hornleikara. 

4 ungir tónlistarmenn urðu hlutskarpastir að mati dómnefndarinnar og koma því fram á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Eldborg í Hörpu þann 14. janúar á næsta ári. Efnisskrá þeirra verður birt fljótlega.

Sigurvegararnir og verk þeirra:

Heiðdís Hanna Sigurðardóttir, söngkona. Verk eftir: Donizetti, Lehár og Jón Ásgeirsson.
Jónas Á. Ásgeirsson, harmonikkuleikari. Gunnar Valkare: Viaggio, Konsertverk fyrir harmonikku og strengjasveit í 8 köflum.
Ragnar Jónsson, sellóleikari. Edward Elgar: Sellókonsert í e-moll op. 85.
Sigríður Hjördís Indriðadóttir, flautuleikari. Carl Nielsen: Konsert fyrir flautu og hljómsveit.

Sigurvegurunum eru sendar árnaðaróskir um leið og öllum nemendunum eru færðar þakkir fyrir þátttökuna.

Myndin er frá tónleikunum Ungir einleikarar í janúar 2015. Þar sést Steiney Sigurðardóttir leika sellókonsert Edward Elgar.

Nánar