EN

30. október 2003

Uppselt á tónleika Todmobile og Sinfóníunnar

Hljómsveitin Todmobile, hvers frægðarsól skein skærust fyrir ríflega áratug, stígur á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum í Laugardalshöll þann 14. nóvember næstkomandi. Á tónleikunum verða flutt öll þekktustu lög tríósins úr Todmobile, þeirra Þorvaldar Bjarna, Andreu Gylfa og Eyþórs Arnalds, en þau koma nú öll þrjú saman aftur til þess að endurvekja hljómsveitina aftur þessa einu kvöldstund.+++ Svo virðist sem margir hafi beðið þeirrar stundar með óþreyju því nú eru allir miðar seldir. Búast má við sérstaklega eftirminnilegu kvöldi enda fer vel á því að þessar tvær gæðahljómsveitir, Sinfóníuhljómsveit Íslands og Todmobile, stilli saman strengi sína. Á fyrri hluta tónleikanna mun ungur efnilegur píanóleikari að nafni Lukás Vondrácek, leika píanókonsert nr. 2 eftir Sergej Rakhmanínov. Hljómsveitarstjóri verður Bernharður Wilkinson. Tónleikarnir eru eins og áður sagði á dagskrá 14. nóvember og hefjast stundvíslega klukkan 19.30.