EN

23. september 2004

Sinfóníuhljómsveitin leikur á Sauðárkróki og í Borgarnesi dagana 29. og 30 september.

SÍ heldur í hljómleikaferð dagana 29. til 30 september og mun halda tvenna tónleika á Sauðárkróki og tvenna í Borgarnesi. Á hvorum stað fyrir sig býður SÍ upp á barnatónleika síðdegis og hefðbundna tónleika að kveldi. +++ Á kvöldtónleikunum á Sauðárkróki þann 29 september, sem hefjast klukkan 20.00 í íþróttahúsinu, verður boðið upp á forleik eftir Beethoven, klarinettukonsert eftir Mozart, svítu eftir Khatsatúrjan og kvikmyndatónlist eftir John Williams. Á tónleikunum Borgarnesi fær hljómsveitin góðan liðsstyrk þegar kórinn Söngbræður mun stíga á stokk og flytja tvö valinkunn verk. Einar Jóhannesson klarinettuleikari í Sinfóníuhljómsveit Íslands mun leika einleik og hljómsveitarstjóri er Bernharður Wilkinson. Miðaverð er 2000 krónur fyrir fullorðna en aðeins 1000 krónur fyrir börn yngri en 16 ára. Eins og áður sagði fá börnin á báðum stöðum einnig eitthvað fyrir sinn snúð og það er líklegast kærkomið á þessum tímum þegar þau hafa lítið fyrir stafni vegna verkfalls kennara. Efnisskráin á síðdegistónleikunum er því fyrst og fremst sett saman með börnin í huga. Ævintýrið um Pétur og úlfinn hefur hrifið margar kynslóðir barna í meðförum Sinfóníuhljómsveitar Íslands og víst er að þrumur og eldingar í túlkun Richard Strauss mun eflaust skemmta barnssálinni. Dagskrá tónleikanna 29. september Íþróttahúsið á Sauðarkróki, klukkan 20.00 Hljómsveitarstjóri: Bernharður Wilkinson Einleikari: Einar Jóhannesson Ludwig van Beethoven: Egmont, forleikur Wolfgang Amadeus Mozart: Konsert fyrir klarinett og hljómsveit Aram Khatsatúrjan: Maskerade svíta John Williams: Kvikmyndatónlist , Jurassic Park , Schindler's List og Star Wars Barnatónleikar á Sauðárkróki hefjast klukkan 16.00 Forsala aðgöngumiða er á Ábæ-veitingum. Miðaverð 2000 kr, börn 1000 kr. Dagskrá tónleikanna 30. september Íþróttamiðstöðin í Borgarnesi klukkan 20.00 Hljómsveitarstjóri: Bernharður Wilkinson Einleikari: Einar Jóhannesson Kór: Söngbræður Ludwig van Beethoven: Egmont, forl. Wolfgang Amadeus Mozart: Konsert f. klarinett og hljómsv. Carl Maria von Weber: Jägerkor úr Der Freischütz Edvard Grieg: Landkjending Sigmund Romberg: Hraustir menn John Williams: Kvikmyndatónlist , Jurassic Park , Schindler's List og Star Wars Barnatónleikar Borgarnesi hefjast klukkan 15.00 Miðaverð 2000 kr, börn 1000 kr.