EN

5. október 2004

Atli Heimir Sveinsson ráðinn tónskáld Sinfóníuhljómsveitarinnar til ársins 2006

Stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands hefur ákveðið að ráða í fyrsta sinn íslenskt tónskáld til að starfa með hljómsveitinni. Að þessu hefur verið unnið alllengi, en heimild er fyrir því í lögum um hljómsveitina. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að leggja þessu lið með sérstöku fjárframlagi í ár og til næstu tveggja ára. Með þessu er verið að árétta mikilvægi þess að hlutur íslenskra tónverka skipi verðugan sess í verkefnum hljómsveitarinnar. +++ Stjórnin hefur ákveðið að ráða Atla Heimi Sveinsson, fyrstan til þessa starfs til loka ársins 2006. Atli Heimir er löngu þjóðþekktur fyrir tónsmíðar sínar. Hann er eitt afkastamesta tónskáld þjóðarinnar. Hann hefur samið fjölda verka fyrir sinfóníuhljómsveit auk þess sem önnur tónverk s.s. sönglög hafa gert hann að einu ástsælasta tónskáldi þjóðarinnar. Hann er því vel að því kominn að hljóta þessa stöðu fyrstur íslenskra tónskálda. Verksvið hljómsveitartónskáldsins er í mótun en mun aðallega felast í því að semja tónverk sem henta sinfóníuhljómsveitinni við margvísleg tækifæri svo og til kynningar á tónlist. Það er stjórn Sinfóníuhljómsveitar Íslands mikil ánægja að geta skýrt frá því að unnt er nú að stíga þetta mikilvæga skref að geta nýtt sér heimild laganna um tónskáld í þágu hljómsveitarinnar og vonar að þetta geti orðið upphaf að framtíðarfyrirkomulagi.