EN

13. október 2004

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir vann til söngverðlauna í Róm

Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir messósópran, sem kemur fram með hljómsveitinni á tvennum tónleikum í lok október, hlaut á dögunum 3. verðlaun í Róm í alþjóðlegri keppni í söng á helgitónlist (Concorso Vocale Internazionale di Musica Sacra) sem haldin var á vegum ítölsku menningarstofnunarinnar l'Accademia Culturale Europea. Á annað hundrað söngvarar frá 31 landi tók þátt en tíu komust í úrslit sem fram fóru 9. okt. í tónlistarsal Conservatorio di Musica Santa Cecilia í Róm að viðstöddu fjölmenni. Verðlaunafé Guðrúnar var 1.000 evrur en að auki býðst sigurvegurunum þátttaka í tónleikahaldi, keppni, upptökum og áheyrnarprófum.+++ Guðrún Jóhanna söng nokkur lög í undanúrslitum en hlaut verðlaunin fyrir túlkun sína á laginu Ave María eftir Sigvalda Kaldalóns, sem dómnefndin óskaði sérstaklega eftir að heyra aftur. Verkið vakti líka mikla athygli annarra flytjenda, sem margir hverjir óskuðu eftir að fá nótur þess. Öll önnur sönglög sem heyrðust í úrslitunum voru eftir heimsfræg tónskáld (Bach, Beethoven, Brahms, Handel, Mendelssohn, Haydn, Pergolesi og Rossini). Dómnefnd skipuðu: - Josef Hussek, listrænn óperustjóri Hamburgischen Staatsoper í Hamborg, Þýskalandi og listrænn stjórnandi listahátíðarinnar í Salzburg, Austurríki. - Pal Moe, listrænn ráðunautur í ráðningarmálum Glyndebourne-óperunnar, Englandi. - Mariano Horak, forstjóri tónlistar-umboðsskrifstofunnar Caecilia, Zürich, Sviss. - Renate Kupfer, verkefnavalstjóri óperuhússins Teatro dell'Opera di Roma, Róm, Ítalíu. - Alessandro Bonelli, listrænn ráðunautur tónlistarhússins Teatro San Carlo í Napólí, Ítalíu. - Alberto Triola, listrænn ráðunautur tónlistarhússins Teatro Carlo Felice í Genúa, Ítalíu. - Daniela de Marco, listrænn stjórnandi Concorso Musica Sacra, Róm, Ítalíu. Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir lauk mastersgráðu í söng við Guildhall-skólann Lundúnum 2001 og útskrifaðist úr óperudeild skólans 2003. Hún býr nú í Madríd á Spáni.