EN

22. október 2004

Nánast orðið uppselt á tónleika Ný Dönsk og SÍ. Miðasala hafin á aukatónleika 5. nóvember

Nú er að verða uppselt á tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands og hljómsveitarinnar Ný Dönsk sem haldnir verða dagana 4. og 6. nóvember næstkomandi og því hefur verið brugðið á það ráð að bæta þriðju tónleikunum við. Þeir verða föstudaginn 5. nóvember, þannig að alls verður því um þrjá tónleika að ræða. Tónleikarnir hefjast allir stundvíslega klukkan 19.30 og eru þeir sem hafa keypt miða á laugardagstónleikana beðnir að athuga það sérstaklega þar sem þeir voru áður auglýstir fyrr um daginn og eitthvað um miða í umferð með rangri tímasetningu. +++ Efnisskráin tónleikanna verður tvískipt. Fyrir hlé verður boðið upp á glæsilega klassíska dagskrá, hið þekkta verk Ravels, Bolero er á efnisskránni ásamt tveimur verka Katsatúrjans, Maskerade svítunni og Spartakus en margir muna eflaust eftir því úr sjónvarpsþáttunum góðu um Onedin-skipafélagið sem voru vinsælir á áttunda áratugnum. Að hléi loknu er svo komið að samspili Sinfóníuhljómsveitarinnar og Nýrra Danskra, þeirra Jóns Ólafssonar, Stefáns Hjörleifssonar, Björns Jr. Friðbjörnssonar og Ólafs Hólm. Hljómsveitin mun leika blöndu af eldri, þekktari lögum og nýrri tónsmíðum. Undanfarin ár hafa slíkir tónleikar, þar sem þekktar íslenskar popphljómsveitir rugla saman reitum með Sinfóníuhljómsveitinni, átt miklum vinsældum að fagna. Skemmst er að minnast vel heppnaðra tónleika með Todmobile á síðasta ári, Sálinni hans Jóns míns árið þar áður og tónleikum árið 2001 þegar Botnleðja og Quarashi léku með Sinfóníuhljómsveitinni. Útsetningar á lögum eftir Nýja Danska er í höndum þeirra Kjartans Valdimarssonar og Samúels Jóns Samúelssonar, Hljómsveitarstjóri verður Bernharður Wilkinson. Miðaverð á tónleikana er 3800 krónur og 3500 krónur í aftari sætaraðir. Þess má geta að um og yfir helgina er hægt að kaupa miða með 15% afslætti ef greitt er með kreditkorti frá VISA. Tilboðið gildir til og með mánudeginum 26 október og því ekki seinna vænna að skella sér á miða, því þeir fara ansi hratt og áhugi er greinilega mikill. Fimmtudagur 4. nóvember, örfá sæti Föstudagur 5. nóvember, aukatónleikar Laugardagur 6. nóvember, örfá sæti