EN

31. október 2005

Afmælistónleikar Seltjarnarnesbæjar

Seltjarnarnesbær fagnar 125 ára afmæli sínu á þessu ári. Af því tilefni efnir Sinfóníuhljómsveit Íslands til afmælistónleika í Háskólabíói fimmtudaginn 3. nóvember. Fjöldi glæsilegra listamanna kemur fram á tónleikunum, Rúnar Vilbergsson leikur fagottkonsert eftir Vivaldi, Davíð Ólafsson, Eyjólfur Eyjólfsson, Sesselja Kristjándóttir og Þóra Einarsdóttir syngja Messu í D-dúr eftir Dvorák en með verkinu má segja að höfundurinn hafi loks sigrað hjörtu Vínarbúa sem höfðu lengi sýnt tónverkum hans fálæti. Efnisskráin er komin á netið!+++ Selkórinn undir stjórn Jóns Karls Einarssonar, tekur einnig þátt í flutningnum. Kórinn hefur fengið mikinn liðsstyrk fyrir tónleikana og telur nú hartnær 90 söngvara. Kórmeðlimir hafa leitað á náðir sinna nánustu og meðal annars hafa börn kórmeðlima, sem eru mörg hver í tónlistarnámi ýmiss konar, fjölmennt á æfingar undanfarið. Að sögn Jóns Karls, kórstjóra, hafa allar þessa ungu björtu raddir í bland við hinar þroskaðri gefið kórnum skemmtilega, nýja hlið. Leiðandi fagottleikari Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Rúnar Vilbergsson, er eldri en tvævetur í sínu fagi. Auk þess að blása með Hinum íslenska þursaflokki um árabil hefur hann leikið hljómsveit Íslensku óperunnar og Kammersveit Reykjavíkur svo eitthvað sé nefnt. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Bernharður Wilkinson en hann er tónleikagestum Sinfóníuhljómsveitarinnar að góðu kunnur og var aðstoðarhljómsveitarstjóri frá árinu 1999 til ársins 2003