EN

9. desember 2005

Tvennir jólatónleikar 17. desember

Jólatónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands hafa fyrir löngu bitið sig fasta í almanakið hjá mörgum og eru orðnir einn af þessum ómissandi viðburðum í aðdraganda jólanna. Uppselt hefur verið á tónleikana undanfarin ár og því var brugðið á það ráð að þessu sinni að halda tvenna tónleikana. Þeir verða laugardaginn 17. desember, næstkomandi kl. 14.00 og 17.00. +++Sú ráðstöfun virðist svo sannarlega hafa verið nauðsynleg því einungis eru um 100 miðar lausir á tónleikana kl. 17 og lítið meira á þá fyrri. Það verður fjölmargt kræsilegt á efnisskránni og fjöldi góðra gesta kemur fram. Kynnir verður leikarinn góðkunni Halldór Gylfason, Arngunnur Árnadóttir mun leika einleik á klarínett, Ingólfur Gylfason verður í hlutverki litla trommuleikarans, barnakórar frá Flúðum og Selfossi stíga á stokk undir stjórn Edit Molnar og Glúms Gylfasonar auk þess sem nemendur úr Listdansskóla Íslands sýna listir sínar en þeim hópi hefur Anna Sigríður Guðnadóttir leiðbeint. Bernharður Wilkinson stjórnar Sinfóníuhljómsveit Íslands líkt og undanfarin ár.