EN

29. september 2006

Tímamót í íslenskri tónlistarsögu. EddaI eftir Jón Leifs hljómar í heild fyrsta sinni

Þann 14. október næstkomandi mun Sinfóníuhljómsveit Íslands ásamt einsöngvurum og kór, flytja EDDU I eftir Jón Leifs. Verkið hefur aldrei áður verið flutt í heild sinni og því er um einstakan viðburð að ræða sem þegar hefur vakið mikla athygli hjá áhugamönnum um norræna tónlist víða um heim. Fjöldi erlendra gesta er væntanlegur til landsins vegna flutningsins og eru blaðamenn stór hluti þeirra. Athygli vekur einnig að í framhaldi tónleikanna verður verkið hljóðritað fyrir sænsku útgáfuna BIS sem áður hefur gefið út flest stóru hljómsveitarverka tónskáldsins. Miðasala á tónleikana er hafin. +++ Jón Leifs vildi leiðrétta Wagner Eddu-óratórían er meistaraverk Jóns Leifs, magnþrungin tónsmíð sem byggir á norrænni goðafræði, allt frá sköpun heimsins til ragnarökkurs. Jón hugsaði sér verkið í fjórum hlutum, sem hver um sig tæki heilt kvöld í flutningi og yrði eins konar mótvægi við Niflungahring Wagners, sem honum þótti hafa misskilið hið sanna norræna eðli. Jón lést frá þriðju Eddu-óratóríunni ófullgerðri, en hvorug hinna fyrri hefur nokkru sinni verið flutt í heild. Hinn þjóðlegi stíll Jóns Leifs nýtur sín hvergi betur en í þessu stórfenglega verki sem samið er við kaldhamraða texta Eddukvæðanna. Sumir ganga svo langt að segja að það sé ekki undarlegt að heildarfrumflutningur verksins fari ekki fram fyrr en nú, vegna þess að nánast ómennskar kröfur séu gerðar til söngvara verksins. “Við höfum séð nóturnar, en aldrei heyrt þær hljóma” Hjálmar H. Ragnarsson, tónskáld Fjöldi listamanna kemur fram á tónleikunum Slagverkshljóðfæri eru einatt áberandi í verkum Jóns. Að þessu sinni eru slagverkshljóðfæraleikararnir þó “einungis” níu talsins en það þykir ekki mikið þegar stór hljómsveitarverk eftir hann eru annars vegar. Til samanburðar má nefna að slagverksmenn voru ríflega helmingi fleiri þegar Baldur var fluttur á Menningarhátíð í Reykjavík árið 2000. Hermann Bäumer Hljómsveitarstjórinn Hermann Bäumer er síður en svo ókunnur verkum Jóns en hann stjórnaði hljómsveitinni við upptökur á Víkingasvari, eftir Jón, sem kom út á geisladiski frá BIS-útgáfunni árið 2004. Hörður Áskelsson Hörður Áskelsson hefur verið organisti og kantor Hallgrímskirkju í Reykjavík allt frá því hann sneri aftur til Íslands að loknu framhaldsnámi í Düsseldorf í Þýskalandi árið 1982. Hann hefur gegnt lykilhlutverki í uppbyggingu listalífs kirkjunnar, stofnaði Listvinafélag Hallgrímskirkju og Mótettukór Hallgrímskirkju árið sem hann kom til starfa og kammerkórinn Schola cantorum árið 1996. Hann er upphafsmaður og listrænn stjórnandi Kirkjulistahátíðar, sem haldin er annað hvert ár, og hinnar árlegu tónleikaraðar Sumarkvölds við orgelið. Hörður hefur stjórnað flutningi margra af stærstu verkum kirkjutónlistarsögunnar, m.a. með Sinfóníuhljómsveit Íslands, og frumflutt fjölmörg íslensk tónverk. Hörður hefur hlotið margs háttar viðurkenningu fyrir starf sitt. Hann hlaut til að mynda Íslensku tónlistarverðlaunin og Menningarverðlaun DV fyrir störf sín árið 2001, var útnefndur borgarlistamaður Reykjavíkur 2002 og var sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2004. Schola cantorum Kammerkórinn Schola cantorum var stofnaður upp úr síðustu áramótum á grunni Schola cantorum, kammerkórs Hallgrímskirkju. Kórinn hafði þá starfað við góðan orðstír í níu ár, undir stjórn Harðar Áskelssonar og haldið fjölmarga tónleika þar sem einkum var flutt tónlist frá endurreisnar- og barokktíma Gunnar Guðbjörnsson Gunnar Guðbjörnsson tenór stundaði söngnám hjá Sigurði Demetz og sótti auk þess söngtíma hjá Nicolai Gedda. Á árunum 1990-91 var hann meðlimur í National Opera Studio í London. Gunnar þreytti frumraun sína á óperusviðinu hjá Íslensku óperunni árið 1988 í hlutverki Don Ottavio í óperunni Don Giovanni eftir Mozart. Gunnar hefur komið fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands við fjölmörg tækifæri, síðast í konsertuppfærslu á óperunni Le pays, eftir Johan-Guy Ropartz sem flutt var á Listahátíð í Reykjavík síðastliðið vor. Bjarni Thor Kristinsson Bjarni Thor Kristinsson bassi stundaði nám við Söngskólann í Reykjavík hjá Ragnheiði Guðmundsdóttur og Garðari Cortes og síðan við Tónlistarháskólann í Vín hjá Helene Karusso og Curt Malm.Að námi loknu var Bjarni ráðinn við Þjóðaróperuna í Vín þar sem hann starfaði sem fastráðinn söngvari 1997-2000. Síðan þá hefur hann verið í lausamennsku. Hann er búsettur í Berlín en hefur verið hér á landi undanfarið við æfingar á Brottnáminu úr kvenabúrinu eftir Mozart, en þar fer hann með hlutverk Osmins. Háskólabíó, laugardaginn 14. október kl. 17.00 Sinfóníuhljómsveit Íslands Hljómsveitarstjóri: Hermann Bäumer Einsöngvarar: Gunnar Guðbjörnsson og Bjarni Thor Kristinsson Kór: Schola cantorum Kórstjóri: Hörður Áskelsson Efnisskrá: Jón Leifs: Edda I