EN

23. október 2006

Heil vika af Brahms og Beethoven. Tvennir tónleikar framundan

Nú er óhætt að fara að hlakka til heillar viku af tónlist Beethovens og Brahms. Dagana 31.október og 2. nóvember verða á dagskrá fyrstu tveir tónleikarnir af fjórum í hinni svokölluðu Brahms/Beethoven tónleikaröð en á efnisskrá hennar eru allir píanókonsertar Beethovens og allar sinfóníur Brahms.Vakin er sérstök athygli á því að fyrri tónleikarnir verða á þriðjudegi sem er óvanalegt en þá verða á efnisskránni 3. sinfónía Brahms ásamt píanókonsertum Beethovens nr. 1 og 2. Einleikari er finnski píanistinn Olli Mustonen sem hefur verið í sviðsljósinu um áratuga skeið þrátt fyrir að vera innan við fertugt. Seinni tónleikarnir þessa vikuna eru hins vegar á fimmtudegi og þá verða á efnisskránni 3. píanókonsert Beethoven og 4. sinfónía Brahms og einleikari enginn annar en Víkingur Heiðar Ólafsson sem hefur hvað eftir annað, á undanförnum árum, hrifið gesti á sinfóníutónleikum með flutningi sínum. Það er Rumon Gamba sem stjórnar hljómsveitinni á tónleikunum. Einungis örfá sæti eru laus á tónleikana 2. nóvember og aðeins tímaspursmál hvenær verður uppselt.