EN

14. nóvember 2006

Æskuverk Mozarts á efnisskránni

Fimmtudaginn 16. nóvember eru tónleikar Sinfóníuhljómsveitarinnar helgaðir verkum Mozarts frá þeim tíma er hann starfaði í þjónustu erkibiskupsins í Salzburg. Tveir menn sátu á stóli erkibiskups á því tímabili, sá fyrri hafði miklar mætur á Mozart-fjölskyldunni og studdi hana með ráðum og dáð en sá seinni hafði litla þolinmæði gagnvart tónleikaflakki fjölskyldunnar og var lítill áhugamaður um tónlist. Samband Mozarts við seinni erkibiskupinn var slæmt og gerði það að verkum að hann þráði það eitt heitast að komast burt frá Salzburg. Það auðnaðist honum fljótlega eftir frumflutning sinfóníu nr. 34, þegar erkibiskupinn af Vínarborg gerði boð eftir honum. Mozart fór frá Salzburg og starfaði þar aldrei framar. +++ Þrátt fyrir mótlætið á þessum tíma samdi Mozart engu að síður ógrynni tónverka sem sýna snilli hans strax á unga aldri og gefa tónleikarnir skýra mynd af verkum táningsins Mozarts. Á efnisskránni er meðal annars að finna verkið Exultate jubilate, eitt frægasta æskuverk Mozarts, auk tveggja verka sem Mozart samdi við Maríutextann Regina Coeli. Hafa ber í huga að Mozart var 15 ára þegar hann samdi fyrra verkið en 16 ára þegar hann samdi það seinna. "Hvað tónlistina varðar kemur fátt á óvart í þessari hrífandi tónsmíð nema það að tæplega 17 ára drengur skuli geta samið af svo mikilli yfirburða kunnáttu, og að því er virðist nær fyrirhafnarlaust." Þannig kemst Árni Heimir Ingólfssson að orði í efnisskrá. Hljómsveitarstjóri á tónleikunum er Robert King, en hann stjórnaði Sinfóníuhljómsveit Íslands og Hamrahlíðarkórunum á eftirminnilegum aðventutónleikum fyrir tveimur árum og heillaðist svo af flutningi íslensku ungmennanna að hann bað um að fá að koma fljótt aftur. Kanadíska söngkonan Gillian Keith var einnig með í för þegar King var hér síðast, þá söng hún Bach með miklum tilþrifum og við væntum einskis minna af henni nú. Þorgerður Ingólfsdóttir og Hamrahlíðarkórarnir hafa fy