EN

29. september 2008

Austrænt krydd í vestrænt tónmál

Í austurvegi - gul tónleikaröð 2. október. Munið súpufundinn Tónleikar fimmtudagsins verða með austurlensku yfirbragði. Nánar tiltekið indónesísku, en þá verður flutt tónlist sem á einn eða annan hátt sækir innblástur í Gamelan-tónlist frá Jövu og Balí. Þessi seiðandi slagverkstónlist barst fyrst til Vesturlanda á heimssýningunni í París 1889 og þar heyrði Claude Debussy hana. Áhrifanna gætir í hans marglita og magnaða tónavef upp frá því, ekki síst í stórvirkinu La Mer, sem hér verður flutt. Ríflega fjörutíu árum síðar var svo komið að Francis Poulenc að heillast, og þá varð m.a. til konsert hans fyrir tvö píanó. Af tónskáldum kvöldsins gekk kanadíska tónskáldið Colin McPhee, en hann fluttist til Balí og bjó þar í tíu ár. Tabuh-Tabuhan frá 1936 ber þess skýr merki og er auk þess markverður upptaktur að naumhyggju í tónlist sem komst í tísku löngu síðar. Nico Muhly er einn mest spennandi tónhöfundur vestahafs nú um stundir. Auk “alvarlegara” tónsmíða hefur hann unnið með listamönnum úr poppheiminum á borð við Anthony Hegarthy, Valgeiri Sigurðssyni og Björk. Wish You Were Here vinnur á frjóan hátt úr einfaldri sýn dægurmenningar og teiknimynda á austurlönd. Sennilega í fyrsta sinn sem Sinfóníuhljómsveitin leikur verk sem sækir innblástur í Tinnabækurnar! Stjórnandi er James Gaffigan, en einleik – eða tvíleik - í verkum Poulencs og McPhee leika svíarnir frábæru Roland Pöntinen og Love Derwinger. Munið súpufundinn Tónleikakynningar Vinafélags sinfóníuhljómsveitarinnar eru skemmtileg viðbót við upplifunina. Þeir hefjast kl. 18. á Hótel Sögu og kosta 1.200 kr. Á fyrsta súpufundi vetrarins mun Árni Heimir Ingólfsson segja frá verkunum og Gamelan-tónlistinni sem þau sækja innblásturinn í. Smelltu hér til að tryggja þér miða á þetta stefnumót austurs og vesturs.