EN

8. október 2008

Sígaunar í Háskólabíói

Tónleikar fimmtudagskvöldsins, þeir fyrstu í grænu röðinni, hafa yfirskriftina Í sígaunasveiflu. Þar verður flutt fjölbreytt tónlist sem á það sammerkt að tengjast eða sækja innblástur sinn í tónlist Roma-þjóðarinnar, sem löngum hefur verið kölluð Sígaunar. Flökkuþjóð þessi á sér ríka og einstaka tónlistarhefð sem mörg helstu tónskáld heimsins hafa hrifist af. Tilfinningaþrungin og hrynvís tónlist þar sem lífsgleði, ástríður og ást á fingrafimi er í forgrunni. Til að miðla þessari mergjuðu tónlist nýtur hljómsveitin liðsinnis þýska hljómsveitarstjórans Sebastian Terwinkel, og fiðluleikarans Rachel Barton Pine. Hún þykir einhver magnaðasti fiðluleikari samtímans, litrík með afbrigðum og leikur af þeim ástríðuhita sem hentar þessari tónlist. Af verkum sem flutt verða má nefna Tzigane eftir Maurice Ravel, ungverska dansa Brahms og hina stórglæsilegu Carmen-fantasíu spænska fiðlusnillingsins Pablo de Sarasate. Smellið hér til að kaupa miða. Tónsproti með sígaunasvip Fyrstu tónsprotatónleikar vetrarins verða á laugardaginn, en þessi fjölskyldutónleikaröð hljómsveitarinnar hefur glatt ófáa undanfarin ár. Sígaunatónlistin verður þar í fyrirrúmi og Rachel Barton Pine mætir með fiðluna. Á staðnum verður líka hin óviðjafnanlega Barbara, en trúðurinn sá er leiðsögumaður ungra áhorfenda inn í heim tónlistarinnar á Tónsprotaröðinni. Tónleikarnir hefjast kl. 14 og eru um klukkustundarlangir. Smelltu hér til að tryggja þér miða.