EN

24. október 2008

Á ferð og flugi

Strax eftir tónleikana 1. nóvember heldur hljómsveitin í tónleikaferð, þó leiðin verði ekki eins löng og áður var gert ráð fyrir. þriðjudaginn 4. nóvember verður hljómsveitin ásamt Kristjáni Jóhannssyni á Akureyri og leikur sömu efnisskrá og á tónleikunum í Háskólabíói í íþróttahúsi Síðuskóla. Líkt og í Háskólabíói verður miðaverð á tónleikana á Akureyri aðeins 1.000 kr. Smelltu hér til að tryggja þér miða á tónleika Kristjáns og Sinfóníuhljómsveitarinnar á Akureyri. Miðvikudaginn 5. nóvember er síðan röðin komin að Austfirðingum, en þá leikur hljómsveitin í Kirkju- og menningarmiðstöð Fjarðarbyggðar á Eskifirði. Daginn eftir liggur leiðin síðan til Hafnar í Hornafirði. Á efnisskrá Austfjarðatónleikanna verða sinfónía Beethovens, forleikur Dvoráks og kafli úr Pétri Gaut. En fiðluleikari kemur í stað söngvarans. Þar fer engin önnur en annar konsertmeistara hljómsveitarinnar, Sigrún Eðvaldsdóttir, og leikur einleik í Rómönsu eftir Árna Björnsson og fyrsta kaflann úr fiðlukonsert Sibeliusar. Sigrún lék einmitt konsertinn á tónleikum 16.október sl. og í fimm stjörnu dómi í Morgunblaðinu sagði Jónas Sen m.a. "Sigrún gæddi leik sinn sterkum tilfinningum og spilaði af ótrúlegum glæsileik". Aðgangur verður ókeypis á tónleikana á Eskifirði og Höfn.