EN

4. apríl 2017

Vögguvísur frá öllum heimshornum

Skólatónleikar í Norðurljósum 4. og 5. apríl

Í þessari viku heldur Sinfóníuhljómsveitin sannkallaða heimstónleika í Norðurljósum. Tónleikarnir eru afrakstur af fjölþjóðlegu fræðsluverkefni sem hljómsveitin hefur starfað að í samvinnu við Austurbæjarskóla, Fellaskóla og Kársnesskóla.

Verkefnið ber heitið Vögguvísur enda er unnið með vögguvísur frá hinum ýmsu heimshornum og þær settar í fjölbreyttan búning í samvinnu við nemendur skólanna. Vögguvísur eru oft og tíðum fyrstu kynni manneskjunnar af tónlist hvar sem fæðast í heiminum. Sérstakur gestalistamaður tónleikanna auk Gretu Salóme er ensk-indverkska söngkonan og tónskáldið Supriya Nagarajan sem kynnir vögguvísur frá Indlandi.

Verkefninu var ýtt úr vör á vormánuðum 2016 en síðasta haust heimsótti hljómsveitin skólana þrjá ásamt Supriyu og Gretu Salóme og kynnti samstarfið með því að leika tónlist frá ýmsum menningarsvæðum. Í kjölfar heimsóknarinnar völdu skólarnir vögguvísur sem hver skóli þróaði áfram og setti í sinn eigin búning.

Vögguvísurnar koma meðal annars frá Serbíu, Filippseyjum, Rússlandi, Indlandi, Íslandi og víðar úr heiminum. Nú verður útkoman kynnt á sérstökum skólatónleikum með söng, dansi, rappi og hljóðfæraleik. Hljómsveitarstóri er Viktor Orri Árnason.

Tónlistarkennararnir Pétur Hafþór Jónsson  og Guðni Franzson unnu með nemendum úr Austurbæjarskóla og Fellaskóla og Álfheiður Björgvinsdóttir stýrir  Skólakór Kársnesskóla. Hjördís Ástráðsdóttir fræðslustjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands leiðir verkefnið.