EN

The King's Singers

Aðventutónleikar Sinfóníunnar

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
29. nóv. 2023 » 19:30 » Miðvikudagur Eldborg | Harpa 3.000 - 9.200 kr.
30. nóv. 2023 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 3.000 - 9.200 kr.

Breski sextettinn The King's Singers er einn frægasti sönghópur heims. Hann hefur starfað óslitið allt frá árinu 1968 þegar sex söngvarar, nýútskrifaðir frá King's College í Cambridge, ákváðu að stofna lítinn sönghóp: tveir kontratenórar, einn tenór, tveir barítónar og bassi. Verkefnavalið var óvenju breitt, allt frá miðaldasöngvum til dægurlaga, og með hrífandi framkomu og eftirminnilegum raddsetningum komst hópurinn fljótt í fremstu röð.

Óhætt er að segja að tónleikar þessa einstaka sönghóps með Sinfóníuhljómsveit Íslands séu langþráðir en þeir voru fyrirhugaðir fyrir heimsfaraldur og verða nú loks að veruleika. Efnisskrá tónleikanna er full af ómótstæðilegum jólalögum úr ólíkum áttum og má þar nefna jafnt gamla, hátíðlega jólasöngva á borð við Kom þú, kom vor Immanúel og Heims um ból sem og léttleikandi lög sem löngu eru orðin ómissandi um þetta leyti árs á borð við Litla trommuleikarann, Klukknahljóm, Jólasveinninn kemur í kvöld og Nú minnir svo ótalmargt á jólin

Öll hljóma þessi kunnuglegu lög í glæsilegum raddsetningum þar sem hæfileikar þessa einstaka sönghóps njóta sín til fulls. Auk þess leikur Sinfóníuhljómsveit Íslands hrífandi barokkperlur eftir Johann Sebastian Bach og Georg Friedrich Händel – þar á meðal kafla úr Vatnatónlist þess síðarnefnda.

The King's Singers hafa sungið inn á yfir 100 plötur sem margar hafa náð metsölu, og halda um 150 tónleika á ári hverju. Þeir hafa sungið í öllum helstu tónleikahúsum heims, m.a. annars í Carnegie Hall, Óperuhúsinu í Sidney og Concertgebouw í Amsterdam. Hópurinn hefur unnið til tvennra Grammy-verðlauna og var valinn í úrvalshóp („Hall of Fame“) tímaritsins Gramophone. The King's Singers hafa einnig pantað ný verk af ýmsum toga, meðal annars eftir György Ligeti, Sir John Tavener, Sally Beamish og Eric Whitacre.

Hópurinn hefur tvívegis sungið á Íslandi, fyrst í Reykjavík 1989 á vegum Tónlistarfélagsins og síðan í Hörpu og Skálholti 2015, en þetta er í fyrsta sinn sem hann kemur fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

Sækja tónleikaskrá