EN

Adam Hickox

Hljómsveitarstjóri

Adam Hickox er ungur að árum og hefur verið að hasla sér völl sem hljómsveitarstjóri á undanförnum misserum. Hann stundaði nám í tónfræðum og tónsmíðum við háskólann í Cambridge og lagði síðan stund á hljómsveitarstjórn við Royal Academy of Music í Lundúnum. Árið 2019 var hann var ráðinn aðstoðarhljómsveitarstjóri Fílharmóníusveitarinnar í Rotterdam til þriggja ára og kom á því tímabili einnig fram sem gestastjórnandi með Orchestre de Paris, Þjóðarhljómsveit Breska útvarpsins (BBC) í Wales og sinfóníuhljómsveitinni í Gävle í Svíþjóð. 

Á þessu ári hefur Hickox meðal annars stjórnað Toscu eftir Puccini í uppfærslu Opera North í Englandi og Ástardrykknum eftir Donizetti hjá Glyndebourneóperunni, auk þess að stjórna hljómleikum með Þjóðarhljómsveit Írlands í Dyflinni og Ulster-hljómsveitinni í Belfast, svo dæmi séu tekin. Hann þreytti í haust frumraun sína með tveimur af sinfóníuhljómsveitunum í Lundúnum, hljómsveitinni Philharmonia og Konunglegu fílharmóníusveitinni, og á nýja árinu taka við tónleikar með sinfóníuhljómsveitinni í St. Gallen í Sviss, Deutsches Symphonie-Orkester í Berlín og Orcheste de la Suisse Romande.