EN

The King's Singers

Þessi víðfrægi sönghópur varð til á sjöunda áratug síðustu aldar þegar sex fyrrum söngvarar úr kór King's College, Cambridge hófu að æfa saman veraldlega söngva. Þeir komu í fyrsta sinn fram undir nafninu The King's Singers á tónleikum í Queen Elizabeth Hall í Lundúnum þann 1. maí árið 1968 og miða upphaf sögu sinnar við þann dag. Hópurinn samanstóð af tveimur kontratenórum, tveimur baritónum, tenór og bassa og hefur sú raddskipan haldist alla tíð þótt skipt hafi verið um menn í áhöfninni. Aðalsmerki hópsins er fjölhæfni, raddfimi og firna nákvæmur samsöngur. 

Efnisskrá The King's Singers hefur í áranna rás rúmað afar fjölbreytta tónlist, allt frá endurreisnartónlist til Bítlalaga, frá þjóðlögum til vínarvalsa og yfir í tónsmíðar György Ligeti. Jólatónlist hefur jafnan skipað ríkulegan sess í dagskrá þeirra. Sönghópurinn hefur ferðast um allan heim og hann hefur tvívegis áður sungið á Íslandi, fyrst á Listahátíð í Reykjavík 1989 og síðan í Hörpu og Skálholti 2015. Hópurinn kemur nú í fyrsta sinn fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands. Tónleikarnir voru fyrirhugaðir fyrir heimsfaraldur en verða nú loks að veruleika.