EN

Grosvenor leikur Busoni

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
1. feb. 2024 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 3.000 - 9.200 kr.
Tónleikakynning » 1. feb. kl. 18:00

Árið 2024 eru hundrað ár liðin frá andláti eins mesta píanóleikara sögunnar, hins ítalska Ferruccio Busoni, en auk þess að vera óviðjafnanlegur einleikari var Busoni frábært tónskáld og hljómsveitarstjóri. Í dag þekkja hann margir einna helst af ægifögrum umritunum á hljómborðsverkum Johanns Sebastians Bach. En tónsmíðar hans sjálfs búa ekki síður yfir mikilli snilld og þótti mörgum hann ná að sameina í tónlist sinni áhrif andstæðra póla 19. aldarinnar – frá Brahms annars vegar og frá Liszt og Wagner hins vegar. 

Píanókonsert hans er eitt stórbrotnasta og umfangsmesta verk sinnar tegundar í sögunni og ögrar lögmálum formsins á ýmsan hátt. Það er því einstaklega ánægjulegt að einn fremsti píanóleikari samtímans, hinn breski Benjamin Grosvenor, leiki það í Eldborg með Sinfóníuhljómsveit Íslands og karlakórnum Fóstbræðrum, en þátttaka karlakórsins er einmitt meðal þess sem veitir konsertinum sérstöðu. Á undan þessum stærsta píanókonserti sögunnar hljómar hið samþjappaða meistaraverk Prokofíevs, Klassíska sinfónían, sem endurómar fagurfræði 18. aldar og gefur hvergi eftir í hugmyndaauðgi og snilldarlegu handbragði þrátt fyrir að vera aðeins um stundarfjórðungur að lengd. 

Benjamin Grosvenor tekur upp fyrir Decca Classics.

Sækja tónleikaskrá