Kornilios Michailidis
Hljómsveitarstjóri
Gríski hljómsveitarstjórinn Kornilios Michailidis stundaði píanónám í París og í Bandaríkjunum og lauk meistaraprófi í hljómsveitarstjórn við Sibeliusarakademíuna í Helsinki. Hann var aðstoðarstjórnandi Finnsku útvarpshljómsveitarinnar 2016–17 og gegndi sömu stöðu við Fílharmóníusveit franska útvarpsins á árunum 2018–20. Hann hefur stjórnað fjölda hljómsveita, þar á meðal Sinfóníuhljómsveitinni í Lahti, Grísku útvarpshljómsveitinni og hljómsveit Parísaróperunnar. Í óperuhúsum hefur hann meðal annars stjórnað Töfraflautu Mozarts við Teatro Real í Madrid sem og Falstaff eftir Verdi og La clemenza di Tito eftir Mozart í Helsinki þar sem hann aðstoðaði einnig við uppsetningu á óperunni Only the Sound Remains eftir Kaiju Saariaho.
Eftir sigur í Alþjóðlegu píanókeppninni í Mayenne í Frakklandi ferðaðist Kornilios Michailidis um Evrópu, Ísrael og Bandaríkin og hélt einleikstónleika þar sem hann lék annars vegar þrjár síðustu sónötur Beethovens og hins vegar efnisskrá tileinkaða verkum Skrjabíns. Þá lék hann á tónleikum með fiðluleikaranum Sergej Krylov og fyrsta píanókonsert Rakhmanínovs með Sinfóníuhljómsveitinni í Aþenu. Árið 2016 stofnaði hann Tónlistarhátíðina í Koufonisia, þar sem klassísk tónlist hljómar á einni af smæstu eyjum Grikklands.
Kornilios Michailidis var staðarhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands starfsárið 2021–22.