EN

Karlakórinn Fóstbræður

Karlakórinn Fóstbræður er sá karlakór Íslands sem á lengstan samfelldan starfsaldur að baki en kórinn hefur starfað samfellt frá haustinu 1916. Þá tók Jón Halldórsson við söngstjórn söngfélags sem hafði verið starfrækt frá 1911 innan vébanda KFUM og kenndi kórinn sig við þann félagsskap til ársloka 1936 þegar hann tók upp nafnið Fóstbræður. 

Leiðir Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Fóstbræðra lágu fyrst saman við uppfærslu Þjóðleikhússins á óperunni Rigoletto eftir Verdi árið 1951. Af þeim verkum sem kórinn hefur flutt með hljómsveitinni má nefna Il trovatore eftir Verdi (1956), Alþingishátíðarkantötu eftir Pál Ísólfsson (1968), Oedipus Rex eftir Stravinskíj (1971 og 2004), Þrymskviðu eftir Jón Ásgeirsson (1975), Sinfóníu nr. 13, Babí Jar, eftir Shostakovitsj (1990, 2002 og 2006) Kullervo eftir Sibelius ásamt Karlakór Reykjavíkur (2015) og Alt-rapsódíu eftir Brahms (2016). Árni Harðarson hefur verið söngstjóri frá árinu 1991.