EN

Benjamin Grosvenor

Píanóleikari

Bretinn Benjamin Grosvenor er með athyglisverðustu píanistum sem komið hafa fram á undanförnum áratugum. Hann er þekktur fyrir fágaðan, ljóðrænan leik og í túlkun hans þykir ríkja hið fullkomna jafnvægi tækni og músíkalskrar tjáningar.

Grosvenor stundaði nám við Royal Academy of Music í Lundúnum og útskrifaðist þaðan 2012 með sérstakri viðurkenningu. Sama ár útnefndi tímaritið Gramophone hann Young Artist of the Year og fleiri viðurkenningar fylgdu í kjölfarið. Hann kom fyrst fram á Proms, tónlistarhátíð Breska útvarpsins (BBC), árið 2011 og hefur síðan verið reglulegur gestur á hátíðinni. Grosvenor hefur leikið með ýmsum hljómsveitum austan hafs og vestan og unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Marin Alsop, Paavo Järvi, Elim Chan, Semyon Bychkov, Riccardo Chailly, Nathalie Stutzman, Mark Elder og Esa-Pekka Salonen. Hann mun leika Busoni konsertinn með Þýsku sinfóníuhljómsveitinni í Berlín í lok þessa mánaðar undir stjórn Robins Ticciati og kemur seinna á starfsárinu fram með Fílharmóníusveitinni í Liège, Sinfóníuhljómsveitinni í Birmingham, Gürzenichhljómsveitinni í Köln og Sinfóníuhljómsveitinni í Pittsburgh, svo eitthvað sé nefnt.

Auk þess að koma fram með hljómsveitum heldur Benjamin Grosvenor árlega fjölda einleikstónleika. Hann lék nýverið á tónleikum í Luzern í Sviss þar sem hann frumflutti nýtt verk eftir ástralska tónskáldið Brett Dean, auk þess að leika verk eftir Chopin og Liszt, og framundan eru m.a. tónleikar í Chicago, París, Mílanó, Köln og Darmstadt.

Grosvenor hljóðritar fyrir Decca Classics útgáfufyrirtækið. Hann hefur á nýliðnum árum sent frá sér plötur með verkum eftir Chopin (2020), Liszt (2021) og Schumann og Brahms (2023) sem allar hafa hlotið eindæma góðar viðtökur.