EN

Benjamin Grosvenor

Píanóleikari

Þrátt fyrir að vera aðeins 27 ára gamall hefur Benjamin Grosvenor þegar fest sig í sessi sem einn áhugaverðasti píanisti Bretlands. Grosvenor hlaut fyrst verulega athygli þegar hann varð hlutskarpastur í BBC Young Musician of the Year-keppninni árið 2004, aðeins 11 ára gamall. Hann lék á upphafstónleikum Proms-tónlistarhátíðarinnar árið 2011, þá 19 ára, og síðan hefur ferill hans verið samfelld sigurganga. Hann hefur leikið með Sinfóníuhljómsveitunum í Birmingham, Boston, Chicago, Lundúnum og Philadelphiu, Fílharmóníusveitunum í Lundúnum og New York, og starfað með hljómsveitarstjórum á borð við Riccardo Chailly, Vladimir Jurowski, Ludovic Morlot og Alan Gilbert.

Meðal helstu afreka Grosvenors á síðasta starfsári má nefna einleikstónleika í Wigmore Hall í Lundúnum, Théâtre des Champs Elysées í París og Palau de Música í Barcelona. Grosvenor hefur verið samningsbundinn Decca Classics frá árinu 2011, og var fyrsti breski píanistinn sem fyrirtækið tók upp á arma sína í nærri 60 ár. Hljóðritanir hans hafa hlotið fjölda verðlauna, meðal annars Diapason d'Or og Gramophone-verðlaun, auk þess sem Gramophone valdi hann Unga listamann ársins. Hann lærði við Royal Academy of Music í Lundúnum og útskrifaðist þaðan árið 2012. Píanóaðdáendur geta sannarlega glaðst yfir því að þessi ungi meistari skuli koma fram á Íslandi í fyrsta sinn.