EN

Anna og Elgar

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
5. okt. 2023 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 3.000 - 9.200 kr.

Sellókonsert Edwards Elgars er einstakur í tónlistarsögunni; ástríðufull og innileg trúarjátning til listarinnar sem samin var eftir harmleik fyrri heimsstyrjaldar. Einleikari í konsertinum á þessum tónleikum er austurríski sellóleikarinn Kian Soltani, en hann er meðal fremstu sellóleikara sinnar kynslóðar. Soltani, sem er Austurríkismaður af persneskum ættum, fléttar gjarnan saman tónlistarhefðum austurs og vesturs, til að mynda í hljóðritunum sínum fyrir þýska útgáfurisann Deutsche Grammophon. Hann er rómaður fyrir tæknilega fullkomnun til jafns við tilfinningalega tengingu við áheyrendur, eins og íslenskir tónleikagestir fengu að kynnast vorið 2022 þegar Soltani lék sellókonsert Schumanns við mikinn fögnuð.

Meðal þeirra fjölmörgu sem sellókonsert Elgars hefur hrifið með sér í gegnum tíðina er Anna Þorvaldsdóttir tónskáld, sem kynntist verkinu sem ungur sellónemandi í Borgarnesi. Sem kunnugt er átti Anna eftir að gera tónlistina að ævistarfi með glæsilegum árangri, en tónsmíðar hennar eru nú reglulega á efnisskrám fremstu hljómsveita heims. Á þessum tónleikum hljómar, ásamt sellókonserti Elgars, AIŌN-sinfónía Önnu en hún byggir á verkinu AIŌN sem Sinfóníuhljómsveit Íslands flutti ásamt Íslenska dansflokknum árið 2021. Þá fléttaðist dansverk Ernu Ómarsdóttur saman við hljóðfæraleik hljómsveitarinnar. Hlaut verkið tvenn Grímuverðlaun, bæði í flokki tónlistar og dans. Tónleikarnir hefjast á upphöfnum og ægifögrum forleik Richards Wagner að óperunni Parsifal, þar sem segir af samnefndum riddara við hirð Arthúrs konungs og leit hans að hinu heilaga grali.

Anna Þorvaldsdóttir hefur verið staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá því í ársbyrjun 2018 og er þessum tónleikum, ásamt tónleikum í Hallgrímskirkju daginn eftir, ætlað að fagna þessu gjöfula samstarfi með því að flytja verk hennar samhliða öðrum stórvirkjum úr tónlistarsögunni. 

Sækja tónleikaskrá