EN

Anna Þorvaldsdóttir: AIŌN

Anna Þorvaldsdóttir (f. 1977) hefur á undanförnum árum skipað sér í fremstu röð tónskálda á heimsvísu og margar helstu hljómsveitir heims hafa pantað hjá henni verk. AIŌN var pantað í sameiningu af Sinfóníuhljómsveit Íslands og Sinfóníuhljómsveit Gautaborgar sem frumflutti það þar í borg ásamt Íslenska dansflokknum vorið 2019, með dansi eftir Ernu Ómarsdóttur. Eftir nokkrar tafir vegna heimsfaraldurs rataði verkið loks á fjalir Eldborgar haustið 2021 í flutningi SÍ og dansflokksins, eftirminnilegt þeim sem heyrðu og sáu dansarana fléttast saman við hljóðfærin og tónlistarfólkið á sviðinu. Í kvöld hljómar AIŌN á ný í Hörpu, í þetta sinn án dans, en það hefur einnig verið flutt í Bandaríkjunum og í Bretlandi, nú síðast í júní á hinni rómuðu Aldeburgh-hátíð í flutningi Sinfóníuhljómsveitar BBC undir stjórn Hannu Lintu. Anna lýsir tilurð verksins svona: 

„Innblásturinn að AIŌN kviknaði út frá myndlíkingunni um að geta ferðast frjálst í tíma, að upplifa tímann líkt og rými sem er dvalið í fremur en ferð í ákveðna átt gegnum eina vídd. Í fyrstu gæti upplifunin einkennst af óreiðu þar sem tíminn er alls staðar í öllum víddum samtímis, svo að hvenær sem þig lystir geturðu gripið hvaða augnablik ævinnar sem er. Eftir því sem betri tökum er náð á rýminu má skynja að upplifunin verður ólík eftir því hvaða sjónarhorn er valið; það er hægt að sjá öll augnablik í einu, einblína á aðeins nokkur þeirra, eða bókstaflega fara og upplifa þau. Augnablikið færist þannig sífellt nær og fjær, bæði í vídd og sjónarhorni. Sum augnablik gæti verið æskilegt að upplifa oftar en önnur og skynjunin breytist við endurtekninguna. Þessi myndlíking um tímann tengist síðan mörgum öðrum stærri hugmyndum um það hvernig við sjáum líf okkar, vistkerfið og okkar eigin stað í heiminum, og hvernig við erum á hverju augnabliki tengd bæði fortíð og framtíð, ekki bara á okkar eigin ævi heldur gegnum kynslóðirnar og enn lengra. Eins og með alla mína tónlist, þá er innblásturinn ekki eitthvað sem ég er að reyna að lýsa með tónlistinni sjálfri eða það sem verkið er um. Kveikjan er leið til þess að kafa inn í kjarna og orku þeirrar tónlistar sem ég er að búa til á hverjum tíma, til að vinna með efniviðinn, formið og stemninguna. Hún skiptir miklu máli í því hvernig verkið verður upprunalega til en á endanum stendur tónlistin algjörlega á eigin fótum og talar fyrir sig sjálf.“

Í veröld verksins eru í aðalatriðum þrjár víddir: Liggjandi hljómar sem haldið er lengi og orka kannski á áheyrandann eins og súlur sem halda byggingunni uppi. Hægfara hljómaskipti skapa innri spennu — og stundum lausn. Ofan á þessum hljómum renna hljóðfæri sér upp og niður tónstiga en slög og plokk kynda undir óreglu: fyrirbærum sem birtast og hverfa á óreglulegan hátt. Þessi lýsing er auðvitað mikil einföldun en á að einhverju leyti við um alla þrjá þættina sem hafa þó hver sín kennileiti. Sá fyrsti (Morphosis) byrjar til dæmis og endar á eins konar þruski, í miðjuþættinum (Transcension) ber talsvert á raspandi hljóðum á meðan taktfastar drunur bassahljóðfæra mynda hápunkt í þeim þriðja (Entropia). En hljóðheimurinn í heild opnar fyrir áheyrandanum kosmískar víddir sem er töfrandi að gefa sig á vald — og gleyma stund og stað. 

Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflutti AIŌN hérlendis 21. október 2021 undir stjórn Önnu-Mariu Helsing. Hljóðritun sveitarinnar á sinfóníunni kom út hjá Sono Luminus útgáfunni í vor og þar stjórnar Eva Ollikainen flutningnum