EN

Kian Soltani

Sellóleikari

Austurríkismaðurinn Kian Soltani hefur að undanförnu skapað sér nafn sem einn eftirsóttasti sellóleikari sinnar kynslóðar. Flutningur hans einkennist af djúpri, persónulegri tjáningu og afburða tækni — tónlistartímaritið Gramophone kallaði leik hans „hreina fullkomnun“ — en Soltani þykir einnig ná einstökum tengslum við áhorfendur. Hann er fæddur í Bregenz árið 1992 af persnesku foreldri og hóf að leika á selló fjögurra ára gamall. Hann innritaðist í Tónlistarakademíuna í Basel aðeins 12 ára gamall og nam síðar við Kronberg-akademíuna í Þýskalandi og Alþjóðlegu tónlistarakademíuna í Liechtenstein. Soltani vakti fyrst heimsathygli þegar hann vann fyrstu verðlaun í Paulosellókeppninni í Helsinki árið 2013.

Kian Soltani kemur reglulega fram með helstu hljómsveitum og hljómsveitarstjórum heims; á þessu starfsári mun hann meðal annars leika með Tonhalle-hljómsveitinni í Zürich, Sinfóníuhljómsveit Vínarborgar, Konzerthausorchester í Berlín og útvarpshljómsveitunum í Köln og Hamborg. Í næsta mánuði tekur hann jafnframt við prófessorsstöðu við Tónlistarháskólann í Vínarborg.

Soltani hljóðritar fyrir Deutsche Grammophon. Fyrsta plata hans, Home, kom út árið 2018 og hefur að geyma verk fyrir selló og píanó eftir Schumann og Schubert auk persneskra þjóðlaga. Hann hefur átt í gjöfulu samstarfi við Daniel Barenboim og meðal annars hljóðritað sellókonsert Dvořáks með Ríkishljómsveitinni í Berlín (Staatskapelle Berlin) undir hans stjórn. Á nýjustu plötu sinni leikur Soltani kvikmyndatónlist og segir um hana: „Öll tónlistin sem heyrist á þessari plötu er framkölluð af sellóinu mínu og leikin af mér eingöngu. Möguleikar hljóðfærisins eru óendanlegir og þessi plata er hylling til þess og til töfra kvikmyndatónlistarinnar.“ Soltani leikur á Stradivariusselló („The London, ex Boccherini“) sem hann hefur að láni frá velgjörðamanni í gegnum Beares International Violin Society