EN

Edward Elgar: Sellókonsert í E-moll, Op. 85

Líkt og Parsifal varð svanasöngur Wagners, er sellókonsertinn op. 85 síðasta stóra verkið sem Edward Elgar (1857–1934) samdi enda þótt hann ætti þá enn 15 ár ólifuð. Konsertinn varð til árið 1919, í kjölfar hildarleiks heimsstyrjaldarinnar fyrri og yfirbragð verksins er tregafullt, hlaðið eftirsjá. Þegar þarna var komið sögu áttu tónsmíðar Elgars ekki lengur upp á pallborðið hjá tónleikagestum — þær þóttu gamaldags — og ekki bætti úr skák að frumflutningur verksins gekk illa vegna ónógs undirbúnings hljómsveitarinnar. Það var því býsna hljótt um konsertinn næstu áratugina, allt þar til rómuð túlkun enska sellósnillingsins Jacqueline du Pré lyfti honum í sviðsljósið. Du Pré hljóðritaði verkið með Sinfóníuhljómsveit Lundúna undir stjórn Johns Barbirolli árið 1965. Platan naut fágætra vinsælda og í kjölfarið varð konsertinn fastur liður á efnisskrám sinfóníuhljómsveita og meðal eftirlætis viðfangsefna sellóleikara.

Konsertinn hefst á þykkum hljómum frá sellóinu — og minnir eilítið á einleikssvítur Bachs —en smám saman rís fyrra stef fyrsta þáttar í samspili einleikara og hljómsveitar og myndar hápunkt. Síðan er annað stef kynnt; það hefst í e-moll eins og hið fyrra en springur svo út í dúr með íburðarmeira hljómsveitarspili. Þessi fyrsti þáttur myndar einskonar samhverfu því dúrinn hverfist aftur í moll og að lokum snýr upphafsstefið aftur. Annan þátt leiðir beint af þeim fyrsta með því að einleikarinn plokkar upphafshljómana og kynnir svo nýja tónhugmynd sem eftir nokkur hikandi skref verður að fjörlegu scherzo. Síðan tekur við hinn undurfagri hægi þáttur, dreymandi sellósöngur þar sem hljómsveitin dregur sig að nokkru leyti í hlé og einungis strengir, klarinett, fagott og horn sjá um meðleikinn. Lokaþátturinn hefst á hressilegu stefi í hljómsveitinni, nokkurs konar marsi, sem sellóið tekur við og kannar á sína vísu en rifjar einnig upp stefjaefni úr fyrri þáttum. Þannig er framgangur marsins ítrekað rofinn af eins konar minningum, eða eftirsjá, þar til að lokum einleikari og hljómsveit marsera saman til enda.

Sellókonsert Elgars hljómaði fyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í flutningi Erlings Blöndals Bengtssonar árið 1973. Í fótspor hans hafa fylgt Ralph Kirshbaum (1988), Gary Hoffmann (1995), Julian Lloyd Webber (1998), Bryndís Halla Gylfadóttir (2006) og Andreas Brantelid (2019). Þar að auki hefur konsertinn oft verið viðfangsefni ungra sellista á lokatónleikum einleikarakeppni LHÍ og SÍ: Guðný Jónasdóttir lék verkið árið 2006, Steiney Sigurðardóttir 2015, Ragnar Jónsson 2016 og Hjörtur Páll Eggertsson 2019. Ungsveit SÍ flutti konsertinn árið 2013 og lék Sæunn Þorsteinsdóttir þá einleikshlutverkið sem hún hafði og gert árið áður með Sinfóníuhljómsveit Norðurlands.