EN
  • Richard_wagner-original4

Richard Wagner: Forleikur að Parsifal

Parsifal var síðasta verkið sem Richard Wagner (1813–1883) auðnaðist að ljúka. Hann kallaði það Bühnenweihfestspiel (hátíðarvígsluleik) því það var samið til flutnings í hinu nýja leikhúsi sem hann hafði látið reisa í Bayreuth. Verkið var frumsýnt árið 1882, á annarri hátíðinni sem haldin var í leikhúsinu. Rætur þess liggja þó mun lengra aftur. Wagner var farinn að hugleiða efnivið þess um það leyti sem hann samdi Lohengrin meira en 30 árum fyrr og fyrstu skissur að verkinu urðu til í Zürich árið 1857. Það var þó ekki fyrr en fyrsta hátíðin í Bayreuth 1876 var um garð gengin með frumflutningi Niflungahringsins sem Wagner tók aftur til við Parsifal, að áeggjan Cosimu konu sinnar. Kveikjuna fann hann í sagnakvæði Wolframs von Eschenbach (d. um 1220) um Gralriddarann Parzival en Wagner skóp verki sínu alveg nýjan söguþráð sem hverfist um fórn og meðlíðan. 

Forleikurinn var fyrst fluttur á jóladag 1878 í Wahnfried, heimili Wagner-fjölskyldunnar í Bayreuth, í tilefni afmælis Cosimu og tveimur árum síðar fékk velgjörðamaður Wagners, Lúðvík 2. konungur af Bæjaralandi, að heyra forleikinn í hirðleikhúsi sínu í München. Wagner leit á sjálfstæðan flutning forleikja verka sinna sem eins konar auglýsingu fyrir óperurnar í heild, því hann smíðaði þá þannig að þeir birtu helsta stefjaefni verkanna – væru hluti fyrir heild. Segja má að forleikurinn að fyrsta þætti Parsifals sé ýkt dæmi um þetta því grunnstefið sem hljómar í fyrstu sex töktum hans ber í sér frum flestra þeirra stefja sem Wagner spinnur í verkinu. Hér er á ferð óhemju falleg og áhrifamikil hljóðfæratónlist sem stendur fyllilega fyrir sínu utan þeirrar heildar sem sviðsverkið er.

Þriðji þáttur Parsifal var fluttur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands í Háskólabíói í nóvember 2006 undir stjórn Johannesar Fritzsch og var það frumflutningur á Íslandi. Einsöngvarar voru Wolfgang Schöne, Kolbeinn Ketilsson og Kristinn Sigmundsson. Atriði úr þættinum hljómaði aftur í flutningi Bjarna Thors Kristinssonar á Wagner-tónleikum SÍ í Eldborg árið 2013 og þá lék hljómsveitin einnig forleikinn að fyrsta þætti óperunnar.