EN

Eric Lu leikur Mozart

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
19. okt. 2023 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 3.000 - 9.200 kr.

Kínversk-bandaríski píanóleikarinn Eric Lu hefur á undanförnum árum skotist hátt upp á stjörnuhimin píanóheimsins en árið 2018 bar hann sigur úr býtum í hinni virtu Leeds-píanókeppni, þá aðeins tvítugur. Lu hefur hlotið mikið lof gagnrýnenda fyrir dýpt og fágun í túlkun sinni, ekki síst í verkum Mozarts. Á þessum tónleikum leikur hann einmitt síðasta píanókonsertinn sem Mozart lauk við á ævinni, Píanókonsert nr. 27 í b-dúr, verk sem geislar af hlýju og mannskilningi. 

Hin tvö verkin á efnisskránni eru bæði ættuð úr Bæheimi, annað frá nítjándu öld og hitt frá þeirri tuttugustu. Í upphafi hljómar hinn kraftmikli og áleitni tvöfaldi konsert Bohuslavs Martinů fyrir tvær strengjasveitir, píanó og pákur, saminn á viðsjárverðum tímum í aðdraganda seinni heimsstyrjaldar. Tónleikunum lýkur á gerólíku verki, Sinfóníu nr. 8 eftir Antonín Dvořák, sem margir telja þá innilegustu og frumlegustu af níu sinfóníum hans, en verkið er uppfullt af hrífandi náttúrumyndum og fuglasöng. Hljómsveitarsjtóri er Tomáš Hanus en hann er meðal fremstu hljómsveitarstjóra Tékklands af sinni kynslóð. Hanus hefur verið aðalstjórnandi Þjóðaróperunnar í Wales frá 2016. Á síðasta starfsári stjórnaði hann hljómsveitum á borð við Royal Philharmonic Orchestra, Hallé-hljómsveitinni í Manchester, þar sem hann er fastagestur, og Deutsche Symphonie-Orchester í Berlín.

*Hljómsveitarstjórinn Dinis Sousa sem upphaflega átti að koma fram á tónleikunum hefur því miður þurft að afboða komu sína vegna óviðráðanlegra orsaka. Í hans stað mun Tomáš Hanus stýra tónleikunum.

Sækja tónleikaskrá