EN

Bohuslav Martinů: Tvíkonsert fyrir tvær strengjasveitir og pákur

Bohuslav Martinů (1890–1959) fæddist í bænum Polička í Bæheimi sem þá tilheyrði Austurrísk-Ungverska keisaradæminu. Tónlistarhæfileikar drengsins komu snemma í ljós og hóf hann fiðlunám sex ára gamall. Tíu árum síðar hélt hann til til náms við Konservatoríið í Prag en reyndist vera vonlaus nemandi og var vikið úr skólanum. Bjó hann áfram í borginni og einbeitti sér að tónsmíðum og bóklestri. Frá 1920–23 var hann síðan með fasta stöðu í fiðludeild Tékknesku Fílharmóníuhljómsveitarinnar. Árið 1923 flutti Martinů til Parísar og nam tónsmíðar hjá Albert Roussel. 1940 flúði hann til Bandaríkjanna og kenndi um árabil við Princeton háskólann og Berkshire tónlistarmiðstöðina í Tanglewood, Massachusetts.

Bohuslav Martinů var mjög afkastamikið tónskáld. Eftir hann liggja 6 sinfóníur, 15 óperur og 14 ballettar, fiðlukonsert, flautukonsert, píanókonsert og sellókonsert, 6 strengjakvartettar og fjöldinn allur af minni hljómsveitar-, kammer- og einsöngsverkum.

Um verkið segir hljómsveitarstjórinn Tomáš Hanus: „Tvíkonsertinn samdi Martinů í Sviss árið 1938. Stíll Martinůs er undir áhrifum nýklassíkur og þeir sem þekkja tónlist hans búast við að heyra verk í þeim stíl. Hann var ekki vanur að skrifa atónal tónlist en í þessu verki forðaðist hann að nota sinn eigin stíl við að túlka myrkustu augnablik veraldarsögunnar sem hann upplifði á þessum tíma. Í samræmi við þunga aðstæðnanna varpar hann öllu farginu yfir á áheyrendur til að lýsa sársaukanum á næstum áþreifanlegan hátt. Í tónlistinni tekur Martinů sjálfur þátt í þjáningunni. Setur sjálfan sig í útrýmingarbúðir og á vígvöllinn. Skilaboðin með tónlistinni eru: þetta er þjáningin“. 

Einleikarar í verkinu, píanóleikarinn Liam Kaplan og pákuleikarinn Soraya Nayyar, koma úr röðum hljómsveitarinnar.

Tvíkonsert Martinůs fyrir tvær strengjasveitir, píanó og pákur hefur ekki áður heyrst á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Síðast hljómaði verk eftir Martinů á tónleikum hljómsveitarinnar í febrúar 2021 en þá lék 1. óbóleikari hennar Julia Hantschel konsert fyrir óbó og hljómsveit eftir tékkneska meistarann.