EN

Tomáš Hanus

Hljómsveitarstjóri

Tomáš Hanus fæddist í Brno í Tékklandi og stundaði nám við Janáček-akademíuna þar í borg. Hann hefur verið aðalstjórnandi og listrænn stjórnandi Þjóðaróperunnar í Wales frá árinu 2016. Meðal óperusýninga sem hann hefur stjórnað þar eru Carmen eftir Bizet, Lævísi refurinn og Úr húsi dauðans eftir Janáček, Leðurblakan eftir Johann Strauss, Rósariddarinn eftir Richard Strauss og Khovanschina eftir Músorgskíj. Þá hefur hann stjórnað fjölmörgum tónleikum við húsið, meðal annars í alþjóðlegu BBC söngkeppninni í Cardiff árið 2017. 

Hanus hefur stjórnað sýningum við mörg af helstu óperuhúsum í Evrópu. Má þar nefna Dönsku þjóðaróperuna, Teatro Real í Madrid, Finnsku þjóðaróperuna, Parísaróperuna og Janáčekóperuna í Brno þar sem hann var um árabil tónlistarstjóri. Þá hefur hann stjórnað við Þjóðarleikhúsið í Prag og óperuhús í Berlín, Dresden, Basel, Kaupmannahöfn, Osló, Lyon og Varsjá. Samband hans við Bæversku ríkissóperuna í München hefur verið einkar náið en þar hafa undir hans stjórn hljómað meðal annars óperurnar Rusalka eftir Dvořák, Jenufa og Věc Makropulos eftir Janáček en einnig óperan Hans og Gréta eftir Humperdinck. Meðal nýlegra óperusýninga undir hans stjórn eru Stríð og friður eftir Prokofíev við Konunglega óperuhúsið Covent Garden í London, síðasta ópera Tsjajkovskíjs Iolanta við Parísaróperuna sem og Rusalka, Hans og Gréta og frumsýning á Évgení Onegin eftir Tsjajkovskíj við Ríkisóperuna í Vínarborg. 

Í tónleikasölum hefur Tomáš Hanus víða staðið á hljómsveitarstjórapalli og stjórnað Sinfóníuhljómsveit Lundúna (LSO), SWR-sinfóníuhljómsveitinni í Baden-Baden, Tékknesku fílharmóníunni, Sinfóníuhljómsveit Breska útvarpsins (BBC) og Hátíðarhljómsveitinni á Mostly Mozart Festival í New York svo nokkrar séu nefndar. Hann stjórnar nú Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn.