EN

Antonín Dvořák: Sinfónía nr. 8

Það má segja að tékkneska tónskáldið Antonín Dvořák (1841–1904) hafi verið umvafinn tónlist frá blautu barnsbeini. Hann ólst upp í sveitum Bæheims, faðir hans var slátrari og veitingamaður en lék á víólu í tómstundum og sneri sér síðar á lífsleiðinni alfarið að hljóðfæraleik. Tveir frændur Antoníns voru atvinnutónlistarmenn og frá 6 ára aldri lærði hann á fiðlu, píanó og orgel og 14 ára gamall samdi hann sitt fyrsta tónverk. Hann hóf feril sinn sem organisti og víóluleikari, meðal annars í hljómsveit Interimsleikhússins í Prag sem þá var óperuhús en varð síðar þjóðleikhús Tékklands. Þjóðernisvitund Tékka var að vakna á þessum árum, en landið tilheyrði Austurísk-Ungverska keisaradæminu, Habsborgaraveldinu svokallaða, og hér í þessu óperuhúsi fékk hún ríkulega næringu. Aðalhljómsveitarstjóri hússins var landi Dvořáks, Bedřich Smetana sem stjórnaði flestum sýningum en í dag er litið á þessa tvo menn sem helstu þjóðartónskáld Tékklands. Að því kom að hann sagði starfi sínu lausu til að geta snúið sér alfarið að tónsmíðum og hagur hans vænkaðist þegar hann hlaut styrk til þeirra starfa frá austurríska ríkinu á árunum 1874–76. Svo vel vildi til að í dómnefnd áttu sæti tveir mektarmenn tónlistarlífs í Vínarborg, Eduard Hanslick og Johannes Brahms, sem heillaðist svo af list unga mannsins að hann tryggði honum umsvifalaust samning við forleggjara sinn. Útgáfurnar hittu beint í mark - Dúettar frá Mæri fyrir tvær söngraddir og píanó og Slavneskir dansar op. 46 seldust eins og heitar lummur og ævilöng vinátta tókst með þeim Brahms og Dvořák.

Dvořák varð mjög vinsæll í gjörvallri Evrópu og þó sérstaklega í Englandi þangað sem hann fór oft og stjórnaði verkum sínum. Var hann sæmdur heiðursdoktorsnafnbót við háskólana í Prag og í Cambridge á Englandi.

Á árunum 1892 – 1895 dvaldi hann ásamt konu sinni í Bandaríkjunum, en honum hafði boðist staða skólastjóra National Conservatory of Music í New York. Hér hafði hann það verkefni að skapa þjóðlegan bandarískan hljóm handa hinni ungu þjóð og hóf hann að kynna sér tónlist hinna svörtu íbúa landsins og einnig frumbyggjanna, þ.e.a.s. indíánanna. Hvatti hann bandarísk tónskáld til að nýta þjóðararfinn og gefa söngvum indíána og fólks af afrískum uppruna nýtt líf í alvarlegum tónsmíðum, rétt eins og hann hafði sjálfur gert við tónlist heimalandsins. Á árum sínum í Bandaríkjunum samdi Dvorák tvö kunnustu verk sín, sellókonsert og sinfóníu nr. 9, sem fékk undirheitið „Úr nýja heiminum“.

Verkalisti Dvořáks er langur. Eftir hann liggja níu sinfóníur, fjöldamörg önnur hljómsveitarverk, forleikir, tónaljóð, tíu óperur, einleikskonsertar fyrir fiðlu, selló og píanó, fjórtán strengjakvartettar og önnur kammerverk, ýmiss konar söngverk fyrir einsöngvara og kóra og hartnær 30 einleiksverk fyrir píanó.

8. sinfónían í G-dúr sem samin var á sveitasetri tónskáldsins í Bæheimi árið 1889, er ljóðræn og sækir margt af efnivið sínum í bæheimskan þjóðlagaarf. Hún hefst reyndar í g-moll þrátt fyrir titilinn, á eins konar sálmastefi sem leikið er á selló, klarínettur, fagott og horn og á þetta stef eftir að heyrast nokkrum sinnum í þættinum. Aðalstefið í G-dúr sem minnir á fuglasöng er kynnt til sögunnar af flautunni og í gegnum allan þáttinn heyrum við þessi tvö stef á víxl í hinum ýmsu hljóðfærahópum ásamt nýjum stefjum.

Annar þátturinn er hægur Adagio kafli í c-moll. Stemningin er margræðin, hér skiptast á skin og skúrir, birta og myrkur.

Þriðji þátturinn hefst á þokkafullu fiðlustefi í g-moll, síðan kemur G-dúr tríó sem óbó og flautur bera uppi og síðar hljómar þetta stef í óbóum og fagottum áður en fiðlurnar taka undir. Allur kaflinn nema niðurlagið er í þrískiptum takti, eins konar vals.

Lokakaflinn er að megin uppistöðu stef með tilbrigðum, en fyrst hljómar lúðrakall frá trompetunum. Frægt er þegar tékkneski hljómsveitarstjórinn Rafael Kubelík sagði eitt sinn á æfingu þegar kom að síðasta kafla sinfóníunnar: „Herrar mínir, í Bæheimi kalla trompetar aldrei til orrustu – þeir kalla ávallt upp í dans!“

Áttunda sinfónía Dvoráks hljómar nú í 22. sinn á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Það var tékkneski hljómsveitarstjórinn, tónskáldið og óbóleikarinn Václav Smetáček sem stýrði fyrsta flutningi hennar í Þjóðleikhúsinu 1957 en síðast heyrðist hún í Eldborgarsal Hörpu haustið 2016. Oftast hefur hljómsveitin leikið verkið í Háskólabíói en einnig sex sinnum úti á landsbyggðinni; 1996 og 1999 á Kirkjubæjarklaustri, Flúðum, Húsavík, Mývatnssveit og Akureyri undir stjórn Bernharðs Wilkinson en Petri Sakari stjórnaði flutningnum á Ísafirði haustið 1996. Þá hefur Sinfóníuhljómsveit áhugamanna fjórum sinnum flutt 8. sinfóníu Dvoráks, síðast í Seltjarnarneskirkju í febrúar 2017. Stjórnandi var Oliver Kentish.