EN

Wolfgang Amadeus Mozart: Píanókonsert nr. 27 Kv 595

Píanókonsert Mozarts (1756–1791) nr. 27 var ekki aðeins síðasti píanókonsert hans heldur einnig síðasta verkið sem hann flutti opinberlega. Í dagblaðinu Wiener Zeitung birtist eftirfarandi frétt í mars 1791: „Herra Bähr, kammermúsikant... hélt tónleika 4. mars í salarkynnum herra Jahns og hlaut mikið lof vandaðra áheyrenda fyrir einstaka færni á klarínettuna. Herra Kapellmeister Mozart lék konsert á píanóið og allir dáðust að list hans, tónverkinu sem og flutningnum, síðan fullkomnaði frú Lange kvöldið með nokkrum aríum“.

Af 27 píanókonsertum sínum, samdi Mozart 14 þeirra, nr. 12 til 25 á fjórum árum, frá 1782 til 1786. Enginn konsert komst á blað árið 1787 en Mozart lauk við smíði D-dúr konsertsins nr. 26 í febrúar 1788. Bendir margt til þess að hann hafi byrjað að semja síðasta konsertinn í lok þess árs en lagt hann til hliðar um stund. Til fróðleiks er rétt að geta þess að um 1780 heyrðust píanókonsertar sjaldnar en til dæmis konsertar fyrir fiðlu, flautu, klarínettu eða horn, en áratug síðar var hljóðfærið komið í hóp þeirra vinsælustu í þessari grein. Framlagi Mozarts til píanókonsertsins má með réttu líkja við framlag Haydns til sinfóníunnar - hann lagði grunn að nýrri tónlistargrein til framtíðar.

Á síðustu æviárum sínum gerðist Mozart æ djarfari í tónsmíðum sínum og notaði ómstríða hljóma, krómatík og tóntegundaflakk í meira mæli en flestir samtímamenn. Til dæmis hefur 1. kafli síðasta píanókonserts hans fremur saklaust yfirbragð en í úrvinnslunni fer tónskáldið tuttugu sinnum á milli tóntegunda innan 49 takta. Hægi kaflinn er fögur og björt aría píanósins þar sem moll hljómar heyrast varla en eru fljótt látnir víkja þá sjaldan sem þeir birtast. Lokakaflinn er ungæðislegur og glæsilegur í alla staði.

Síðasti píanókonsert Mozarts hefur aðeins tvisvar sinnum áður hljómað í meðförum Sinfóníuhljómsveitarinnar. Fyrst í lok febrúar 1981 þegar franski píanóleikarinn Anne Queffélec lék verkið með hljómsveitinni. Fyrst á efnisskrá tónleikanna var Pulcinella-svítan eftir Stravinskíj en eftir hlé flutti hljómsveitin í fyrsta sinn Dafnis og Klói, balletttónlistina í heild sinni með fulltingi Hamrahlíðakórsins. Stjórnandi var JeanPierre Jacquillat. Þá flutti Edda Erlendsdóttir píanókonsert Mozarts á tónleikum hljómsveitarinnar í mars 1999 og stýrði Rico Saccani þá flutningnum. Báðir þessir tónleikar fóru fram í Háskólabíói.