EN

Eva stjórnar Eldfuglinum

Áskrift að tónleikaröð eða Regnbogakorti tryggir þér öruggt sæti á besta verðinu með 20% afslætti
Dagsetning Staðsetning Verð
7. sep. 2023 » 19:30 » Fimmtudagur Eldborg | Harpa 3.000 - 9.200 kr.

Á fyrstu áskriftartónleikum starfsársins stjórnar Eva Ollikainen kraftmikilli balletttónlist Igors Stravinskíj við ævintýrið um Eldfuglinn, grípandi meistaraverki sem gerði hinn 27 ára gamla Stravinskíj heimsfrægan á einni nóttu þegar það var frumflutt í París árið 1910. Verkið byggir á rússneskri þjóðsögu um prins sem frelsar prinsessu úr klóm skelfilegs skrímslis með aðstoð þokkafullrar kynjaveru, eldfuglsins, sem verkið dregur nafn sitt af. Á undan ævintýri Stravinskíjs hljómar annað lítið ævintýri, Märchenpoem eða Ævintýraljóð eftir Sofiu Gubaidulinu, töfrandi lítil tónhugleiðing um listina og fegurðarþrána.

Einleikari tónleikanna er hin unga, norska sellóstjarna Amalie Stalheim sem hlotið hefur fjölda verðlauna fyrir leik sinn og er óðum að leggja tónlistarheiminn að fótum sér. Hún stígur á svið með kynngimagnað samtímaverk í farteskinu, sellókonsert sænska tónskáldsins Anders Hillborg sem sameinar fíngerða ljóðrænu og djúpa, syngjandi ástríðu.

Tónleikarnir hefjast á Íslandsfrumflutningi á glænýju verki eftir Daníel Bjarnason, fyrsta verkinu í hljómsveitarþríleik Daníels sem pantaður var af Sinfóníuhljómsveitinni í Toronto, Sinfóníuhljómsveitinni í Cincinnati, Filharmóníusveitinni í Helsinki og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Þríleikurinn er innblásinn af gervigreind og hverfist um spurningar um eðli meðvitundarinnar og lífsins. Hann ber titilinn I Want To Be Alive. Fyrsta verkið í þríleiknum ber titil sem vísar í gríska goðafræði, Echo / Narcissus. 

Sækja tónleikaskrá