EN

Anders Hillborg: Sellókonsert

Anders Hillborg (f. 1954) er eitt eftirsóttasta tónskáld Svía um þessar mundir, tilraunaglaður fjölhyggjumaður sem leitar víða fanga í tónlist sinni. Höfundaverk hans er víðfeðmt og margradda þar sem greina má áhrif frá alls kyns tónlistarstefnum og stílum, rokki, rappi og poppi, hljóðfæratónlist og raftónlist, litríkri spektraltónlist og flókinni fjölröddun. Hillborg hóf ferilinn í rokkhljómsveit á unglingsárunum og söng á svipuðum tíma í kór en hann kveður þetta upphaf hafa mótað sig mjög sem tónskáld. Á árunum 1976 til 1982 stundaði hann nám í hljóðfæratónsmíðum, kontrapunkti og raftónlist við Konunglega tónlistarháskólann í Stokkhólmi þar sem hann naut meðal annars handleiðslu enska tónskáldsins Brian Ferneyhough. Frá árinu 1982 hefur hann gefið sig óslitið að tónsmíðum.

Hillborg vakti fyrst athygli með kórverkinu Mouyayoum (1985) fyrir sextán radda kór, innblásið af yfirtónasöng og fíngerðum blæbrigðum en verkið hefur verið hljóðritað og flutt af kórum víða um heim. Rúmum tíu árum yngri eru Páfuglasögur eða Peacock Tales (1998), konsert fyrir stóra hljómsveit og grímuklæddan, dansandi klarinettleikara en Martin Fröst, sem verkið var samið fyrir, leikur það reglulega á tónleikum sínum, með tígulega feneyska grímu og hrífandi látbragð og sviðshreyfingar.

Andstæður þykja gjarnan setja mark sitt á tónsmíðar Hillborg, þar sem stefnt er saman kyrrstöðu og hreyfingu, vélrænu og lífrænu, hátíðleika og hversdagsleika, því hlægilega og því hjartnæma. Andstæður eru að einhverju leyti undirliggjandi í sellókonsertinum sem hér hljómar þar sem takast á hægir og hugleiðslukenndir kaflar í bland við fyrirvaralítil og tryllingsleg upphlaup, himneskir sálmar og ofsafengnir hljóðaklasar. Hljóðfærasveitin er tiltölulega fámenn þar sem strengir gegna burðarhlutverki en litbrigði strengjanna og ekki síst einleikssellósins eru þanin til hins ýtrasta með ofurviðkvæmum flaututónum, öfgafengnu glissi (þar sem fingrum á gripbretti strengjahljóðfæra er rennt hægt á milli tóna), ljóðrænum og leitandi laglínum og taktföstu banki. Leiðari sellódeildarinnar stígur fram sem annar einleikari í verkinu og rennur á köflum saman við aðalsólistann.

Sellókonsertinn er í einum samfelldum þætti, upphaf og niðurlag brothætt og hikandi, hljóðlátt og svífandi. Konsertinn var saminn fyrir sellóleikarann Nicolas Altstaedt sem frumflutti ásamt Sinfóníuhljómsveitinni í Antwerpen í október 2020.  Verkið hefur síðan hljómað víða en fjölmargar hljómsveitir stóðu að baki tónsmíðapöntuninni; Sinfóníuhljómsveitirnar í Antwerpen, Basel, Detroit, Quebec og Stavanger, Fílharmóníuhljómsveitin í München og Sellótvíæringurinn í Amsterdam.

Þetta er frumflutningur verksins á Íslandi. Áður hefur SÍ flutt tónlist Anders Hillborg en árið 2012 lék Martin Fröst Peacock Tales ásamt hljómsveitinni hér í Eldborg við frábærar undirtektir tónleikagesta.