EN

Daníel Bjarnason: I Want To Be Alive I: Echo / Narcissus

Daníel Bjarnason (f. 1979) á að baki litríkan feril sem tónskáld, hljómsveitarstjóri og listrænn stjórnandi. Hann hefur starfað náið með tónlistarfólki úr ólíkum áttum, þvert á stíla og strauma og samið tónlist sem hefur heillað hlustendur víða um heim, tónlist sem er frumleg og kraftmikil, einstaklega tjáningarrík, tilfinninganæm og litauðug. 

Í sístækkandi verkaskrá hans má finna verk fyrir ólíka hljóðfærahópa og miðla, kvikmyndatónlist, sviðsverk og óperu en á næsta ári mun Íslenska óperan frumflytja nýja óperu hans Agnesi. Daníel hefur samið konserta fyrir heimsþekkta einleikara svo sem fiðluleikarann Pekka Kuusisto, slagverksleikarann Martin Grubinger og píanóleikarann Víking Heiðar Ólafsson, unnið með hljómsveitarstjórum á borð við Esa-Pekka Salonen og Gustavo Dudamel og tónlistarfólki svo sem Brian Eno og hljómsveitinni Sigur Rós.   

Hljómsveitarverkið I Want To Be Alive er hljómsveitarþríleikur sem er saminn að beiðni Sinfóníuhljómsveitarinnar í Cincinnati, Fílharmóníusveitarinnar í Helsinki, Sinfóníuhljómsveitar Íslands og Sinfóníuhljómsveitarinnar í Toronto. Verkið hverfist um áleitnar spurningar sem lúta að mennsku og meðvitund, lífi á tímum gervigreindar, ábyrgð tækninnar, hvernig vélvæddur samtíminn muni móta framtíðina og hver þáttur samkenndar og tengsla verði í þeirri veröld. Getur vél verið lifandi og búið yfir sjálfsmynd? Og ef það er svo, hver eru tengsl okkar við hana? 

Líkt og heitið ber með sér er fyrsti þáttur þríleiksins, Echo / Narcissus, innblásinn af grísku goðsögunni um gyðjuna Ekkó og ástarviðfangið Narkissos. Á Ekkó hafa verið lögð þau álög að geta einungis bergmálað það sem hún heyrir í kringum sig. Hún verður ástfangin af piltinum Narkissos en er ófær um að tjá honum ást sína enda getur hún ekkert sagt frá eigin brjósti. Hún visnar smátt og smátt upp þar til ekkert verður eftir af henni nema röddin -  sem bergmálar umheiminn. Narkissos verður sömuleiðis fyrir grimmum álögum því hann verður ástfanginn af eigin spegilmynd og því ófær um að sýna umheiminum samkennd og kærleika.  

Þrá eftir tengingu og nærveru, viðurkenningu og samtali og vangaveltur um sjálfsdýrkun og viðstöðulausan bergmálshellinn liggja þannig að baki þessu volduga hljómsveitarverki en þátturinn Echo / Narcissus var frumfluttur af Sinfóníuhljómsveitinni í Toronto í júní 2023 undir stjórn Gustavo Gimeno. Ráðgert er að annar þátturinn verði frumfluttur síðar í vetur og þríleikurinn svo frumfluttur í heild sinni árið 2025. 

Þetta er frumflutningur verksins á Íslandi en SÍ hefur flutt fjölmörg verk eftir Daníel Bjarnason. Má þar nefna píanókonsertinn Processions, sellókonsertinn Bow to String, fiðlukonsertin Scordatura og hljómsveitarverkið From Space I Saw Earth. Daníel hefur gegnt stöðum staðarlistamanns og aðalgestastjórnanda Sinfóníuhljómsveitar Íslands og gegnir nú stöðunni „listamaður í samstarfi“.