EN

Igor Stravinskíj: Eldfuglinn

Igor Stravinskíj (1882 - 1971) var 28 ára gamall þegar honum skaut upp á stjörnuhimininn með látum í kjölfar frumflutnings Ballets Russes á Eldfuglinum í París. Þetta var árið 1910 og upphafið að frjóu samstarfi Stravinskíjs og ballettflokksins; Petrushka var frumflutt ári síðar, Vorblótið setti allt á annan endann árið 1913 og síðan áttu eftir að bætast við fjölmargir aðrir ballettar sem staðfestu enn frekar stöðu Stravinskíjs sem eitt eftirtektarverðasta tónskáld sinnar tíðar, þar á meðal Pulcinella (1920), Les Noces (1923) og Appolo (1928).

 Ballets Russes var tiltölulega nýstofnaður þegar Eldfuglinn sló í gegn en flokkurinn starfaði á árunum 1909 til 1929, sýndi við miklar vinsældir í París, víðar um Evrópu (þó aldrei í Rússlandi) og í Ameríkuálfum og varð mikilvægur vettvangur fyrir gróskumikla nýsköpun þar sem margt af framsæknasta listafólki samtímans var fengið til samstarfs. Tónskáldin Debussy, Ravel, Satie og Strauss, myndlistarmennirnir Kandinsky, Matisse, Picasso og Dali, búningahönnuðurinn Coco Chanel og danshöfundarnir Michel Fokine, Vasily Nijinsky og George Balanhine - svo nokkur séu nefnd.

Að baki þessu listræna stórveldi stóð rússneski athafnamaðurinn Sergei Diaghilev, ástríðufullur listunnandi sem vakti snemma athygli fyrir stórhuga og metnaðarfull menningarverkefni. Eftir að hafa fetað sig áfram á braut listrænnar stjórnunar í Pétursborg settist Diaghilev að í París þar sem hann tók til óspilltra málanna að kynna rússneska list fyrir Parísarbúum. Hann var forsprakki viðamikillar sýningar á rússneskri myndlist sem sett var upp í París 1906, stýrði ári síðar glæsilegri tónlistarhátíð í París með þátttöku margra af skærustu tónlistarstjörnum Rússa á þeim tíma á borð við bassasöngvarann Feodor Chaliapin, píanóleikarann Josef Hofmann og tónskáldið Nikolai Rimsky-Korsakov og setti árið 1908 upp Boris Goudonov eftir Mussorgsky áður en kom að stofnun Ballets Russes árið 1909.  Áhuginn á rússneskri menningu hafði þannig byggst markvisst upp í frönsku heimsborginni og var tekinn að ná hæstu hæðum þegar danshöfundurinn Michel Fokine tók að spinna söguþráð fyrir ballett sem byggði meðal annars á þekktu slavnesku minni um yfirnáttúrulegan eldfugl.

Það lá síður en svo í augum uppi að Stravinskíj skyldi fenginn til að semja tónlistina. Hann var rétt að hefja ferilinn sem tónskáld þegar þetta var, með örfáar tónsmíðar í farteskinu en árið 1909 hafði Diaghilev sótt tónleika með hljómsveitarverkum hans í Pétursborg og hrifist af. Í kjölfarið fékk hann Stravinskíj til að útsetja næturljóð og vals eftir Chopin fyrir uppfærslu Ballets Russes á Les Sylphides árið 1909. Þegar kom að því að fá tónskáld til að semja tónlist við Eldfuglinn leitaði Diaghilev hins vegar til að minnsta kosti þriggja rússneskra tónskálda áður en honum hugkvæmdist að ámálga hugmyndina við þetta efnilega en alls óþekkta tónskáld sem Stravinskíj var á þeim tíma.

Söguþráður Eldfuglsins er ævintýri þar sem hið góða og illa takast á, yfirnáttúrulegar verur koma við sögu og ástin sigrar að lokum. Sögusviðið er álagagarður hins grimma Kastsei þar sem bjartleitur Ivan prins hittir fyrir töfrum slunginn eldfugl. Prinsessur, sem Kastsei hefur hneppt í álög, stíga dans í garðinum og Ívan fellir hug til einnar þeirra. Þegar Kastsei er við það að breyta Ívani prins í stein birtist eldfuglinn á ögurstundu, fær Kastsei til að stíga æðisgenginn vítisdans og svæfir hann svo með tregafullri vögguvísu. Ívan nær að brjóta fjöregg Kastsei en með því rofna álögin, nótt víkur fyrir birtu og degi og stórfenglegum lokadansi.

Tónlist Stravinskíjs býr yfir ótrúlegri litauðgi þar sem blæbrigði hljómsveitarinnar eru nýtt til hins ýtrasta en heima í Rússlandi hafði Stravinskíj notið leiðsagnar Rimsky- Korsakov, hins mikla meistara á sviði hljómsveitarútsetningar. Andstæðir heimar hins yfirnáttúrulega og hins mennska eru undirstrikaðir með ólíkum hljóðheimum, hljóðheimur eldfuglsins krómatískur og framandlegur með glissi, plokki, trillum og flaututónum, hljóðheimur Ívans og prinsessanna þýðari.

 Þjóðlegu stefjaefni bregður fyrir í dansi prinsessanna og hornsólói í lokaþættinum og trylltur vítisdans Kastseis gefur fyrirheit um kraftinn sem á eftir að leysast úr læðingi með Vorblótinu þremur árum síðar. Á tónleikum, sem fram fóru í Redding í Kaliforníu fyrir fimm árum og finna má á Youtube, rak saklaus tónleikagestur upp skaðræðisöskur þegar hljómsveitin sló magnþrunginn upphafshljóminn; tónlist Stravinskíjs heldur áfram að koma okkur í opna skjöldu, rúmri öld eftir að hún var frumflutt. 

Enski hljómsveitarstjórinn Eugene Goosens stýrði fyrsta flutningi Eldfuglsins hér á landi, á tónleikum Sinfóníuhljómsveitarinnar í Þjóðleikhúsinu 1954. Síðan hefur verkið hljómað 17 sinnum í flutningi SÍ, að skólatónleikum ótöldum. Meðal þeirra sem haldið hafa um sprotann eru Andre Previn, (1970) Paul Zukofsky (1980) og Vladimir Ashkenazy (2004).  Til eru þrjár hljómsveitarsvítur af balletttónlist Stravinskíjs sem gerðar voru 1911, 1919 og 1945 en sú í miðið hefur notið langmestrar hylli og hljómar hér.