EN

Sofia Gubaidulina: Ævintýraljóð

Sofia Gubaidulina (f. 1931) hefur um árabil verið eitt virtasta tónskáld samtímans og sinnir tónsmíðum enn af miklum móð, komin á tíræðisaldur. Hún er fædd í Kristópól í Tatarlýðveldinu í Rússlandi sem þá heyrði undir Sovétríkin en hefur verið búsett í Hamborg frá árinu 1992.  Tónlist hennar var tekin að vekja athygli umheimsins um þær mundir, fiðlukonsertinn Offertorium frá 1980, sem Gidon Kremer flutti á tónleikum um heim allan, varð til að koma henni á kortið utan Sovétríkjanna en í kjölfarið hafa hljómsveitir og tónlistarfólk um víða veröld keppst við að panta og flytja verk hennar.  Fyrir Gubaidulinu endurspeglar tónlistin þrá og leit manneskjunnar eftir hinu andlega og yfirskilvitlega,  í tónlist hennar finnum við upphafningu hins dulræna þar sem saman blandast litskrúðugir hljóðheimar vesturs og austurs, flækjur og einfaldleiki, kyrrð og mikilfengleiki, fastmótuð form og spuni, óendanlega heillandi hljóðheimur sem er fullur af mystík og töfrum.  

Gubaidulina var fertug þegar hún samdi verkið sem hér hljómar. Ævintýraljóð er hljóðmynd við ævintýr um litla krít eftir tékkneska rithöfundinn Mazourek, tónlistin var frumflutt í barnatíma í útvarpinu árið 1971. Sagan er í miklu eftirlæti hjá Gubaidulinu - enda er auðvelt að spegla hlutskipti listamannsins í einræðisríki í söguþræðinum. Sofia Gubaidulina kjarnar hann á þessa leið:

Litla krít í skólastofu dreymir um að teikna kastala, lystigarða og úthöf. En dag eftir dag er hún pínd til að skrifa hundleiðinleg orð, tölur og stærðfræðitákn og hún tekur að skreppa saman, ólíkt börnunum í skólastofunni sem vaxa og dafna. Að lokum er krítin orðin svo lítil og visin að henni er hent. Hún velkist um í myrkri og er á því að hún hafi dáið. En viti menn, krítin hefur hafnað í vasa lítils drengs. Hann tekur hana upp og byrjar að teikna á gangstéttina -  undursamlega kastala, stórkostlega lystigarða, skæra sól og sléttan sjó. Krítin verður svo yfir sig hamingjusöm og sæl að hún verður ekki einu sinni vör við að hún er að leysast upp í þessari dásemdarveröld ímyndunaraflsins.

Þetta er í fyrsta sinn sem Ævintýraljóð Sofiu Gubaidalinu hljómar á tónleikum SÍ. Áður hefur hljómsveitin flutt fjölmargar tónsmíðar hennar á tónleikum, má þar nefna Þríkonsert fyrir fiðlu, selló og bajan, Sieben Worte fyrir selló, bajan og strengi og fiðlukonsertinn Offertorium.