EN

J. S. Bach: Hljómsveitarsvíta nr. 3

Svítur barokktímans eru af frönskum rótum runnar — eða réttara sagt frá dálæti frönsku hirðarinnar á dansi. Leiksýningar og óperur þóttu þar varla boðleg skemmtun nema á undan þeim færi eins konar forleikur: dans með viðeigandi tónlist. Sólkonungurinn Loðvík 14. fór þarna fremstur í flokki. Hann dansaði sjálfur og hirðtónskáld hans, Jean-Baptiste Lully, gerði sér far um að skrifa ballett- tónlist inn í óperur sínar svo konungur yrði ekki svikinn um dansskemmtun. Þessa ballettþætti mátti svo draga saman í svítur sem leiknar voru án þess að dans fylgdi. Þannig varð til ný tegund hljóðfæratónlistar sem varð afar vinsæl á síðari hluta sautjándu aldar og fram eftir þeirri átjándu.

Johann Sebastian Bach samdi margar svítur fyrir einleiks- hljóðfæri (frægar eru til dæmis sellósvíturnar og franskar og enskar svítur fyrir hljómborð) en hljómsveitarsvítur hans eru einungis fjórar. Þær fylgja franskri forskrift með því að þær hefjast á Ouverture (forleik), og raunar lét Bach það heiti ná yfir hverja hljómsveitarsvítu í heild sinni. Þessi fyrsti þáttur er gjarnan lengstur og hátíðlegastur — í 3. svítunni eru það ekki síst trompetarnir sem ljá tónlistinni glæsileika. Í kjölfarið fylgja svo dansþættir, þar sem ólíkar takttegundir koma við sögu og hægir þættir og hraðir skiptast á. Dansarnir eru yfirleitt tvískiptir og hvor helmingur fyrir sig endurtekinn. Í svítu nr. 3 kemur hægi þátturinn strax í kjölfar forleiksins. Það er hið undurfagra Air, sem öðlaðist sjálfstæðar vinsældir á 19. öld þegar þýski fiðluleikarinn August Wilhelmj umritaði það fyrir einleiksfiðlu með undirleik og mælti svo fyrir um að laglínan skyldi leikin á neðsta streng fiðlunnar, G-strenginn. Næstar í svítunni koma tvær líflegar Gavottur í tvískiptum takti og síðan Bourrée sem upprunalega er sveitadans frá Auvergne-héraði. Svítunni lýkur á Gigue, glaðlegum dansi í 6/8-takti sem á uppruna sinn í skoskum og írskum þjóðdönsum.

Ekki er vitað með vissu hvenær hljómsveitarsvíturnar urðu til. Lengi vel var talið að Bach hefði samið þær á Köthen-árunum 1717–23 þegar hann var í þjónustu Leopolds fursta, en nú þykir allt eins líklegt að þær hafi orðið til eftir að hann fluttist þaðan til Leipzig. Að minnsta kosti eru elstu varðveittu handrit verkanna frá þeim tíma.