EN

Maurice Ravel: Valses nobles et sentimentales

Dansinn, einkum valsinn, var Maurice Ravel (1875-1937) hugleikið tónlistarform, eins og heyra má í mörgum tónsmíða hans. Nær sá áhugi og jafnvel ástríða allt að því tortímandi hámarki í sjálfum La Valse frá árinu 1920. Níu árum fyrr samdi hann valsasyrpu fyrir píanó og kallaði Valses nobles et sentimentales. Þar vísaði hann markvisst í tvær valsasyrpur Schuberts með svipuðum titlum, frá 1823 og 1826, þar sem önnur syrpan var tigin og hin tilfinningarík.  Þótt Ravel notist við sama form, er tónmál hans gjörólíkt og hann gefur engar vísbendingar um hvaða valsar eru tignir og hverjir tilfinningaríkir. Ómstríðir óuppleystir hljómar og djarfar tóntegundabreytingar ráða ríkjum og þótti tónskáldið tefla á tæpasta vað í þessari tónsmíð.

Valsarsyrpan var upphaflega píanóverk, frumflutt á tónleikum árið 1911 þar sem tónskálda var ekki getið í efnisskrá, en áheyrendum látið eftir að giska hver ætti hvaða verk. Brugðið var á það ráð til að koma í veg fyrir sleggjudóma gagnrýnenda, sem áttu það til að mæta með fyrirfram ákveðnar skoðanir á þekktum tónskáldum. Þegar valsar Ravels hljómuðu varð einhverjum á orði að píanóleikarinn hlyti að vera að spila vitlausar nótur og nokkuð var púað og baulað. Að leik loknum hófust ágiskanirnar: Satie, Kodály, Koechlin, d’Indy… sagt er að einungis fáir tónleikagestir hafi áttað sig á hver væri höfundurinn, þeirra á meðal var Debussy.

Þrátt fyrir dræmar viðtökur í upphafi hefur valsasyrpa Ravels lifað góðu lífi í tónleikasölum og jafnvel danssölum heimsins. Ári eftir frumflutning píanóverksins útsetti tónskáldið valsana fyrir hljómsveit og ballett var saminn við tónlistina, Adélaïde, ou le langage des fleurs, þar sem söguþráðurinn minnir um margt á Kamelíufrúna eftir Dumas, sem er uppistaða óperunnar La Traviata eftir Verdi. Ballettinn er sjaldan á fjölunum nú á dögum, en valsar Ravels í hljómsveitarbúningi hljóma oft, þeir þykja bera höfundi sínum fagurt vitni og sýna glöggt einkenni hans sem tónskálds.