EN

Hljóðfæraleikarar

Bryndís Halla Gylfadóttir

  • Deild: Selló
  • Netfang: bryndishallagylfadottir ( @ ) gmail ( . ) com

Bryndís Halla Gylfadóttir hóf sellónám sex ára að aldri. Eftir nám við hina ýmsu tónlistarskóla á Íslandi og í Kanada lauk hún einleikarapró frá Tónlistarskólanum í Reykjavík undir handleiðslu Gunnars Kvaran. Hún hélt í kjölfarið til Bandaríkjanna í framhaldsnám við New England Conservatory of Music í Boston. Bryndís útskrifaðist þaðan með bakkalárgráðu árið 1987 og meistaragráðu árið 1989. Kennarar hennar við skólann voru Colin Carr og Laurence Lesser.

Auk náms við NEC tók Bryndís þátt í ýmsum tónlistarhátíðum vestanhafs, m.a. í Banff Centre for Arts og hinni virtu Tanglewood Music Center hátíð. Að námi loknu tók Bryndís við stöðu leiðandi sellóleikara í Sinfóníuhljómsveit Íslands, stöðu sem hún gegndi til ársins 2014.

Bryndís hefur komið fram sem einleikari og kammermúsíkant á Íslandi sem og erlendis og fjölmargar hljóðritanir hafa að geyma leik hennar. Hún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir sellóleik sinn og má þar nefna Íslensku tónlistarverðlaunin, sem hún hefur hlotið í þrígang, Tónvakaverðlaun Ríkisútvarpsins og síðast en ekki síst Riddarakross íslensku Fálkaorðunnar árið 2011 fyrir framlag sitt til íslenskrar tónlistar.