EN

Hljóðfæraleikarar

Laufey Jensdóttir

  • Deild: 1. fiðla

Laufey Jensdóttir (1985) hóf nám á fiðlu fjögurra ára gömul í Tónlistarskóla Íslenska Suzukisambandsins og nam hún einnig við Tónlistarskólann í Reykjavík. Laufey stundaði síðar framhaldsnám við tónlistarháskólann í Utrecht, Hollandi hjá kennurunum Evu Koskinen og Elisabeth Perry. Hér heima og erlendis hefur Laufey sótt ýmis námskeið í fiðluleik meðal annars hjá Kristóf Barati, Kees Hülsmann, Kati Sebestyen og Almitu Vamos. Í námi sínu í Hollandi kynntist Laufey upprunaflutningi á barokktónlist og sótti þar tíma m.a. hjá barokkfiðluleikurunum Enrico Onofri og Antoinette Lohman. 

 Hefur Laufey bæði flutt og hljóðritað tónlist með ýmsum kammerhópum, hljómsveitum og listamönnum svo sem Kammersveit Reykjavíkur, Caput, Sigur Rós, Björk, Múm, Camerata Øresund, Alþjóðlegu Barokksveitinni, Gustav Mahler Jugendorchester og Sinfóníuhljómsveit Íslands. 

 Laufey er einn stofnenda og leiðara Barokkbandsins Brákar sem sérhæfir sig í upprunaflutningi á barokktónlist en sveitin hlaut Íslensku Tónlistarverðlaunin árið 2020. Þá var Laufey einnig tilnefnd til Íslensku Tónlistarverðlaunanna árið 2019 sem flytjandi ársins fyrir einleik sinn með Kammersveit Reykjavíkur á tónleikum sveitarinnar sama ár. 

Hefur Laufey verið lausráðin við Sinfóníuhljómsveit Íslands frá árinu 2012 en hlaut hún fastráðningu í fyrstu fiðlu árið 2019.