EN

Tónleikaferð til Bretlands

Fylgstu með #IcelandSymphonyOnTour

  • Home Delivery

Sinfóníuhljómsveit Íslands heldur í tónleikaferð til Bretlands í febrúar 2020 og heldur tónleika í átta borgum undir stjórn Yan Pascal Tortelier. Leikið verður í nokkrum fremstu tónleikahúsum Bretlands: Symphony Hall í Birmingham, Usher Hall í Edinborg og Cadogan Hall í Lundúnum. Með í för verða píanistarnir Jean-Efflam Bavouzet og Yeol Eum Son sem skiptast á að flytja píanókonsert Ravels. Einnig leikur hljómsveitin L'Arlesienne svítuna eftir Bizet og sinfóníu nr. 1 eftir Sibelius.

Hér eru allar dagsetningar á tónleikum ferðarinnar.

Lagalisti með verkunum sem Sinfóníuhljómsveit Íslands leikur í tónleikaferðinni

Á öllum tónleikunum verður flutt verkið Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur staðartónskáld hljómsveitarinnar og hafa tónleikahaldarar sérstaklega óskað eftir því að hún verði í för með hljómsveitinni og taki þátt í tónleikakynningum, námskeiðum fyrir tónskáld og fleiri viðburðum á hverjum stað. Er því ljóst að Anna og íslensk tónsköpun verða mjög í sviðsljósinu í þessari ferð.

Sinfóníuhljómsveit Íslands frumflutti Aeriality 
eftir Önnu Þorvaldsdóttur í Hörpu árið 2011

Yan Pascal Tortelier, hljómsveitarstjóri

Yan Pascal Tortelier er íslenskum tónleikagestum að góðu kunnur en hann var aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands árin 2016-2019. Tortelier kemur úr þekktri franskri tónlistarfjölskyldu og faðir hans, Paul Tortelier, var einn mesti sellóleikari Frakklands á 20. öld. Hann hóf ungur nám í fiðlu- og píanóleik og stundaði einnig nám í hljómfræði og kontrapunkti hjá Nadiu Boulanger. Fjórtán ára gamall vann hann til fyrstu verðlauna í fiðlukeppni við Tónlistarháskólann í París og þreytti sama ár frumraun sína sem einleikari með Fílharmóníuhljómsveit Lundúna. Hugur hans stefndi þó annað og að loknu námi í hljómsveitarstjórn hjá Franco Ferrara í Siena starfaði hann um níu ára skeið sem aðstoðarstjórnandi Orchestre National du Capitole de Toulouse.

Tortelier var síðan aðalhljómsveitarstjóri Ulster-hljómsveitarinnar í Belfast á Norður Írlandi frá 1989–1992 og BBC-fílharmóníunnar á árunum 1992–2003. Þá var hann aðalgestastjórnandi Pittsburgh-sinfóníunnar frá 2005–2008 og aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í São Paulo í Brasilíu frá 2009–2011 og er nú heiðursgestastjórnandi hennar.

Yan Pascal Tortelier hefur í gegnum tíðina stjórnað mörgum af helstu hljómsveitum heimsbyggðarinnar. Þar má meðal annars nefna Sinfóníuhljómsveit Lundúna, Concertgebouw-hljómsveitina í Amsterdam, Tékknesku fílharmóníuna, Filharmonien í Ósló, Filarmonica della Scala í Mílanó, Philadelphia Orchestra, Fílharmóníuhljómsveitirnar í Lundúnum, Sankti Pétursborg og Los Angeles Philharmonicog sinfóníuhljómsveitirnar í Boston, Chicago og Montreal.

Jean-Efflam Bavouzet, einleikari

Jean-Efflam Bavouzet fæddist í Frakklandi 1962 og lærði píanóleik við Konservatóríið í París. Hann vakti fyrst athygli á heimsvísu þegar hljómsveitarstjórinn kunni, Georg Solti, valdi hann til að debútera á tónleikum með Orchestre de Paris árið 1995. Bavouzet hefur komið fram með hljómsveitarstjórum á borð við Pierre Boulez, Vladimir Jurowski, Andris Nelsons og Iván Fischer. Hann hefur komið fram í öllum helstu tónleikasölum heims og haldið einleikstónleika m.a. í Wigmore Hall og Concertgebouw-salnum í Amsterdam. Diskar hans hafa hlotið ótal verðlaun og viðurkenningar, meðal annars tvenn Gramophone-verðlaun fyrir konserta eftir Debussy og Ravel, og fyrir fjórða hefti af píanótónlist Debussys. Hann hlaut einnig tilnefningu til sömu verðlauna árið 2018 fyrir píanókonsert Griegs með Fílharmóníusveitinni í Bergen.

Yeol Eum Son, einleikari

Suður-kóreski píanóleikarinn Yeol Eum Son hóf að læra á píanó þriggja ára en vakti fyrst heimsathygli þegar hún lék einleik með Fílharmóníusveitinni í New York aðeins 18 ára gömul. Hún vann silfurverðlaun í alþjóðlegu Tsjajkovskíj-keppninni árið 2011, og hlaut sérstök verðlaun fyrir besta konsertflutning í sömu keppni. Hún hefur leikið einleik með mörgum fremstu hljómsveitum heims og hefur leikið inn á sex geisladiska sem allir hafa fengið frábæra dóma í heimspressunni.

 

 

Anna Þorvaldsdóttir, tónskáld

Anna Þorvaldsdóttir var útnefnd staðartónskáld Sinfóníuhljómsveitar Íslands í byrjun árs 2018. Anna er eitt virtasta tónskáld samtímans og hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar fyrir tónlist sína. Verk hennar eru flutt reglulega víðsvegar um heim og hafa hljómað á tónleikastöðum og hátíðum eins og Mostly Mozart-hátíðinni í New York, í Walt Disney Hall í Los Angeles og í Kennedy Center í Washington D.C. Anna var handhafi Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2012, hlaut verðlaunin Kravis Emerging Composer Prize frá Fílharmóníuhljómsveitinni í New York 2015, og árið 2018 hlaut hún tvenn verðlaun frá Lincoln Center: Emerging Artist Award og The Martin E. Segal Award.

Meðal þeirra sem hafa leikið verk Önnu má nefna Sinfóníuhljómsveit Íslands, International Contemporary Ensemble (ICE), New York Philharmonic, Los Angeles Philharmonic, Ensemble Intercontemporain, NDR Elbphilharmonie, Bang on a Can All-Stars, The Crossing, Oslo Philharmonic, og Royal Stockholm Philharmonic. Fyrsta portrait plata Önnu – Rhízōma – kom út hjá bandaríska útgáfufyrirtækinu Innova Recordings haustið 2011 og hlaut afar góðar viðtökur og dóma, en platan var meðal annars valin á lista yfir bestu plötur ársins 2011 hjá tímaritunum TimeOut New York og TimeOut Chicago. Önnur portrait plata Önnu – Aerial – kom út hjá Deutsche Grammophon í nóvember 2014 og var valin á fjölda lista yfir bestu plötur ársins, til að mynda hjá The New Yorker Magazine, Boston Globe, iTunes Classical, og hjá klassísku útvarpsstöðinni WQXR/Q2. Þriðja portrait plata Önnu – In the Light of Air – kom út árið 2015 í útgáfu bandarísku útgáfunnar Sono Luminus í flutningi International Contemporary Ensemble. Platan hlaut afar góðar viðtökur og dóma og var meðal annars valin á lista yfir bestu plötur ársins hjá Alex Ross hjá The New Yorker, á bandarísku útvarpsstöðinni NPR, Boston Globe, og hjá The New York Times