EN

Eldbjørg leikur Shostakovitsj

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
12. nóv. 2020 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Norski fiðluleikarinn Eldbjørg Hemsing hefur vakið mikla athygli fyrir glæsilegan leik og var nýverið tilnefnd til Spellemann-verðlaunanna í heimalandi sínu. Hún flytur hinn tilþrifamikla fiðlukonsert nr. 1 eftir Shostakovitsj sem á sér dramatíska sögu. Um það leyti sem Shostakovitsj samdi konsertinn var honum úthúðað á tónskáldaþingi í Moskvu og nokkur lykilverk hans bönnuð. Hann vissi sem var að nýja verkið myndi ekki falla yfirvöldum í geð og því lá það óhreyft í skúffunni þar til Jósef Stalín lést sjö árum síðar.

Írska tónskáldið Elizabeth Maconchy lærði hjá Ralph Vaughan Williams og var meðal annars undir áhrifum frá Bartók í tónsköpun sinni. Hún samdi merkilega tónlist og naut mikillar virðingar fyrir verk sín, bar til dæmis sigur úr býtum í samkeppni fyrir nýtt verk í tilefni af krýningu Elísabetar II. Bretadrottningar og gegndi um skeið formennsku í Breska tónskáldafélaginu. 

Hér hljómar Næturljóð hennar frá árinu 1950, kyrrlát næturstemning með djúpri undiröldu. Níunda sinfónía Dvořáks er svo lykilverk í þjóðlegri sinfóníusmíði 19. aldar, hrífandi samruni gamla heimsins og hins nýja.

Úrúgvæski hljómsveitarstjórinn Carlos Kalmar snýr aftur til Íslands eftir langt hlé, en hann vakti aðdáun fyrir frammistöðu sína með hljómsveitinni fyrir rúmum áratug. Hann hefur í millitíðinni verið aðalstjórnandi Sinfóníuhljómsveitarinnar í Oregon en kemur einnig fram með leiðandi hljómsveitum bæði í Evrópu og Bandaríkjunum.