EN

Strauss og Bruckner

Athugið: Starfsárið 2020/21 er birt með fyrirvara um breytingar. Miðasala hefst síðar.
Dagsetning Staðsetning Verð
22. okt. 2020 » 19:30 - 21:30 Eldborg | Harpa 2.600 - 8.100 kr. Miðasala ekki hafin

Spennuþrungnir og ljóðrænir tónar síðrómantíkur setja mark sitt á þessa tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Sinfóníumeistarinn Anton Bruckner samdi alls 11 slík verk en sú þeirra nr. 2 var tímamótaverk á ferli hans. Með henni fann hann hljóðheim sem er engu öðru líkur, þykkur og kraftmikill. Þessi magnaða sinfónía hljómar nú í fyrsta sinn á Íslandi.

Norska sópransöngkonan Marita Sølberg hefur lagt áheyrendur að fótum sér undanfarin ár, bæði austan hafs og vestan. „Hún er ógleymanleg Mimì í hæsta alþjóðlega flokki“, sagði rýnir Opera News um söng hennar í La bohème í Ósló, en hún hefur einnig sungið við hátíðirnar í Salzburg og Glyndebourne auk þess sem hún sló í gegn í Vínaróperunni og La Fenice í Feneyjum. Annar norskur gagnrýnandi skrifaði að rödd hennar væri „algerlega stórkostleg, svo innileg og blæbrigðarík að hún gæti fengið stein til að hrífast með“. 

Á Íslandi syngur Marita Fjóra síðustu söngva eftir Richard Strauss, sem var síðasta verkið sem tónskáldið lauk við, rúið trausti eftir hremmingar heimsstyrjaldarinnar síðari. Tónsmíðagáfan brást honum þó ekki og verkið er einhver fegursta kveðja til jarðlífsins sem nokkru sinni hefur verið fest á blað. 

Tónleikarnir hefjast með áhugaverðu nýju verki sem pantað var í sameiningu af Finnsku útvarpshljómsveitinni og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Outi Tarkianen er fædd í Lapplandi og hefur hlotið mikið lof fyrir tónlist sína, meðal annars tilnefningu til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs 2018. Nýjasta verk hennar er innblásið af ís á Norðurslóðum og hægu ferli árstíðanna. Systurverkið Midnight Sun Variations var frumflutt í fyrra á Proms-tónlistarhátíðinni í Royal Albert Hall og hlaut frábærar viðtökur. „Það geislaði af orku“, sagði gagnrýnandi The Times í Lundúnum, „ægifagurt verk eftir tónskáld með sterka rödd“.