EN

Antonín Dvořák: Sinfónía nr. 9

„Úr nýja heiminum“

Þegar Antonín Dvořák (1841–1904) var boðið að taka við rektorsstöðu við National Conservatory of Music í New York kom það honum í opna skjöldu. Dvořák var ekki heimsborgari í eðli sínu. Hann hafði yndi af að fylgjast með dúfum og járnbrautarlestum, og hvergi kunni hann betur við sig en í sveitum Bæheims. Þegar honum bauðst rektorsembættið hafði hann líka nýtekið við prófessorsstöðu í Prag og var tregur til að takast á hendur svo langt ferðalag á ókunnar slóðir. 

En að baki tilboðinu var kona sem gafst ekki auðveldlega upp: Jeanette Thurber, sem var ákafur listunnandi og auðkýfingsfrú. Árið 1884 stofnaði hún óperuhús sem átti að veita Metropolitan-óperunni samkeppni og færa upp óperur á ensku. Þegar hún hafði tapað tæpum tveimur milljónum dollara – sem var stjarnfræðilega há upphæð í þá daga – gaf hún óperurekstur upp á bátinn en stofnaði í staðinn tónlistarskóla sem skyldi veita framúrskarandi menntun, burtséð frá efnahag nemenda. Hinn nýi skóli var fyrstur til að veita nemendum af afrísk-amerískum og indíána-ættum tónlistarmenntun á háskólastigi í Bandaríkjunum.

Eftir langar samningaviðræður steig Dvořák á skipsfjöl í september 1892 og hélt til nýja heimsins ásamt eiginkonu sinni og tveimur elstu af sex börnum þeirra. Hann kunni prýðilega við sig þegar komið var á leiðarenda. Hann fékk að stjórna tónlist sinni í flutningi frábærra hljómsveita, tónsmíðanemendurnir voru upp til hópa efnilegir, og hann fann sér stað í Central Park þar sem hann gat skoðað dúfur í frístundum. Hann lagði sig líka fram um að kynna sér þjóðlega tónlist hins nýja heimalands síns eins og má heyra í flestum verka hans frá Ameríkuárunum. Það var ekki fyrr en þriðja veturinn í New York að heimþráin gerði vart við sig, og Dvořák kvaddi nýja heiminn í apríl 1895. Níundu sinfóníuna samdi hann fyrri part árs 1893, og hún var frumflutt í glænýjum tónleikasal borgarinnar – Carnegie Hall – í desember sama ár.

Sinfónían byrjar á hægum inngangi sem brýst síðan út í dramatískt Allegro. Seinna aðalstef kaflans er dæmi um áhrif bandarískra þrælasálma á tónskáldið, og minnir jafnvel á hinn alkunna Swing Low, Sweet Chariot. Annar þáttur er frægastur fyrir fagurt stef enska hornsins en ekki síður áhrifaríkir eru hljómarnir sjö sem heyrast á undan stefinu sjálfu. Þeir leiða hlustandann inn í heillandi töfraveröld og minna jafnvel á forleikinn að Draumi á Jónsmessunótt eftir Mendelssohn eða huliðshjálmsstefið úr Niflungahring Wagners. Þegar aðalstefið hefur hljómað tekur við órólegri miðkafli og um skeið skiptast á skin og skúrir. Aðalstefið snýr aftur undir lokin en nú bætir Dvořák við hjartnæmum þögnum, eins og hann vilji ekki sleppa hendinni af stefinu í síðasta sinn. Hann hlýtur að hafa þekkt píanósónötu Schuberts í A-dúr (D. 959), þar sem Schubert beitir einmitt sömu aðferð í lokatöktunum.

Í þriðja kaflanum, sem er scherzo, koma áhrifin hins vegar beint frá Beethoven, nánar tiltekið úr níundu sinfóníu hans. Þótt tóntegundin sé önnur er heildarútkoman sláandi lík – léttfættur eltingaleikur hljóðfæranna við dynjandi undirleik pákunnar. Dvořák sagði að kaflinn væri innblásinn af söguljóði Longfellows um indíánapiltinn Hiawatha, nánar tiltekið þegar Indíánarnir dansa í brúðkaupsveislu Hiawatha og Minnehaha. Lokaþátturinn er sannkölluð stefjaveisla. Dvořák kynnir til sögunnar ný stef en fléttar þeim gömlu einnig saman við. Kaflinn verður dramatískari eftir því sem á líður og tónlistin kemst í uppnám á köflum, en að lokum fellur allt í ljúfa löð.

Árni Heimir Ingólfsson